Vegabréf/áritanir

 

Umsókn um íslenskt vegabréf

Hægt er að sækja um ný íslensk vegabréf hjá sendiráði Íslands í Washington og aðalræðisskrifstofu Íslands í New York. Afgreiðslutími fyrir vegabréf er frá kl. 9:30-11:00 (vegna tímamismunar við Ísland) alla virka daga, samkvæmt tímapöntun, Washington sími: 202-265-6653  New York sími: 212-593-2700

Umsækjendur þurfa að hafa í huga að frágangur umsóknar og mynda- og fingrafarataka getur tekið nokkra stund.

Vakin er athygli á því að ræðismenn geta ekki lengur tekið við umsóknum um vegabréf.

Ræðismenn geta eftir sem áður haft milligöngu um útgáfu neyðarvegabréfa, ferðaskilríkja eftir því sem við á í sérstökum neyðartilfellum.

Umsækjendur verða að koma í eigin persónu til sendiráðsins þar sem lífkennamynd er tekin af viðkomandi á staðnum og er þar með óþarfi að koma með passamynd. Einnig eru tekin fingraför af umsækjendum eldri en 12. ára. Gjaldskrá frá 01.jan 2018 er USD 120 fyrir 18-66 ára en USD 55 fyrir aðra og óskast greitt í reiðufé eða ávísun. Ekki er tekið við greiðslukortum.

Við vegabréfaumsóknir barna er þess krafist að báðir foreldrar eða forráðamenn komi í sendiráðið og samþykki með undirskrift á fylgiskjali. Fylgiskjal þetta er hægt að nálgast á www.skra.is og einnig er hægt að fá það sent frá sendiráðinu geti annað foreldri/forráðamaður af einhverjum ástæðum ekki mætt í sendiráðið en þá þarf hann/hún að hafa undirritað skjalið og fengið það vottað af tveimur einstaklingum og þarf ljósrit af persónuskilríkjum forræðismanns og beggja votta að fylgja með. Sé um einn forræðisaðila að ræða er æskilegt að framvísa sönnunargagni þar um, skilnaðarpappírum eða staðfestum samningi um forsjá.

Börn sem fædd eru erlendis þurfa að vera komin með kennitöluskráningu í íslensku þjóðskránni og nauðsynlegt er að kennitöluvottorð frá þjóðskrá fylgi komi kennitala ekki fram á skírnarvottorði barnsins, sem einnig þarf að framvísa fæðingarvottorði, hafi barnið ekki fengið útgefið vegabréf fyrr.

Nafnabreytingar!

Ef umsækjendi hefur tekið upp nýtt eftirnafn eða breytt á einhvern hátt eftirnafni sínu þarf að vera búið að ganga frá tilkynningu um slíkt til þjóðskrár á Íslandi (www.skra.is). Slíkt gerist ekki sjálfkrafa þó makar taki upp nafn hvors annars við hjónavígslu.

Vegabréfin eru síðan útbúin á Íslandi og póstsend til umsækjanda innan fárra daga.


Vegabréfsáritanir

Íslenskir ríkisborgarar þurfa ekki vegabréfsáritun til Bandaríkjanna, hyggist þeir dvelja þar skemur en 90 daga í landinu. Skv. nýjum reglum ber öllum ferðamönnum til Bandaríkjanna að framvísa raflesanlegu vegabréfi og ESTAfylla út fyrir komu til Bandaríkjanna.

Sérstök athygli er vakin á því að það er refsivert skv. bandarískum lögum að dvelja lengur en 90 daga á ferðamannaáritun og framfylgja bandarísk yfirvöld því nákvæmlega.

Hyggist íslenskur ríkisborgari dvelja lengur en 90 daga í Bandaríkjunum þarf hann að sækja um vegabréfsáritun í sendiráði Bandaríkjanna á Íslandi, sjá vefsetur sendiráðsins.

Video Gallery

View more videos