Flutningur til Bretlands


Sendiráðið bendir á heimasíðu breska ríkisins www.gov.uk þar sem má finna ýmsar gagnlegar upplýsingar um búsetu í Bretlandi, t.d. mál sem varða skatta, skóla, atvinnu, húsnæði og réttindi og skyldur. Spurningum um flutning til Bretlands má einnig beina til breska sendiráðsins á Íslandi.

Atvinna

Allir launþegar í Bretlandi verða að sækja um „National Insurance Number“, vegna greiðslna á tekjuskatti og almannatryggingum. Sækja má um NI númer þegar atvinnuleit er hafin eða þegar viðkomandi er kominn með vinnu. Sótt er um í gegnum Jobcentre Plus.

Atvinnu- og dvalarleyfi

Íslendingar þurfa hvorki atvinnu- né dvalarleyfi til þess að búa og starfa í Bretlandi vegna EES-samningsins.

Íslendingar sem hafa búið í Bretlandi í fimm ár samfleytt geta sótt um skírteini hjá UK Border Agency, sem staðfestir rétt þeirra til fastrar búsetu í Bretlandi (e. Registration Certificate). Ekki er skylda að sækja um skírteinið en það getur reynst gagnlegt að hafa slíkt undir höndum.

Í Bretlandi er ekki starfrækt þjóðskrá, svo ekki þarf að skrá sig sérstaklega þegar er flutt er til landsins. Íslendingum ber hins vegar skylda til að tilkynna flutning frá Íslandi til Þjóðskrár Íslands.

Húsnæði

Algengt er að leigusalar fari fram á sex vikna tryggingu og einn mánuð fyrirfram við undirritun leigusamnings. Á leigusölum hvílir lagaleg skylda til að geyma tryggingagreiðslur í svokölluðu „tenancy deposit protection scheme“. Sjá nánar hér.

Skólagjöld við breska háskóla

Íslendingar eiga almennt ekki rétt á „home fees“ nema að uppfylltum vissum skilyrðum samkvæmt UK Council for International Student Affairs. Sérstök athygli er vakin á flokkum númer eitt og sex.

Sumir íslenskir námsmenn hafa komið til Bretlands áður en háskólanám hófst og gátu framvísað launaseðlum til viðkomandi skóla svo þeir töldust vera „EEA migrant workers“. Hafa ber í huga að engin trygging er fyrir því að háskólar taki þetta til greina og eru til dæmi um að stúdentar hafa ekki náð að lækka skólagjöldin þrátt fyrir að hafa stundað vinnu í Bretlandi áður en nám hófst eða samhliða námi.

SÍNE veitir einnig upplýsingar og aðstoð til námsmanna erlendis.

Skráning hjá heimilislækni og tannlækni

Á heimasíðu National Health Service (NHS) má finna næstu heilsugæslustöðvar og tannlækna með því að slá inn sínu póstnúmeri. Panta þarf tíma hjá heilsugæslustöð og framvísa umbeðnum gögnum, t.d.  vegabréfi og „utility bill“ (gas- og rafmagnsreikningi t.d.) sem sönnun á heimilisfangi. Sjá nánar hér.

Vegabréf

Umsækjendur um ný vegabréf þurfa að mæta í eigin persónu til sendiráðsins og panta þarf tíma fyrirfram í síma 020 7259 3999 eða á netfangið emb.london@mfa.is. Ræðismenn taka ekki lengur við umsóknum um vegabréf en geta gefið út neyðarvegabréf. Sjá nánar  hér.

Ökuskírteini

Íslenskum sendiskrifstofum óheimilt að taka á móti umsóknum um íslensk ökuskírteini ef viðkomandi Íslendingur er með fasta búsetu erlendis. Föst búseta miðast við að viðkomandi búi a.m.k. 185 daga á hverju almanaksári í viðkomandi landi. Undanskildir eru aðilar sem dvelja erlendis vegna tímabundinna verkefna eða náms (12. gr. tilsk. nr. 2006/126/EB). Sjá nánar hér.

Video Gallery

View more videos