Upplýsingar um Ólympíuleikana og Ólympíumót fatlaðra í London 2012

Velkomin á upplýsingasíðu íslenska sendiráðsins í London fyrir Ólympíuleika og Ólympíumót fatlaðra í júlí, ágúst og september 2012.

Hér er að finna einfaldar upplýsingar fyrir þá Íslendinga sem hyggjast ferðast til London í tengslum við þessa viðburði.

 

Miðar

Á Íslandi annast Icelandair miðasölu á Ólympíuleikana og Ólympíumót fatlaðra. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Icelandair. Athuga ber að fjöldi miða er takmarkaður.

Til að koma í veg fyrir vonbrigði er sterklega varað við því að kaupa aðgöngumiða frá óopinberum aðilum. Margir einkaaðilar hafa fengið leyfi til að selja aðgöngumiða. Til að vera fullviss um að þú sért að kaupa frá slíkum aðila, getur þú kannað hvort hann sé skráður hér.

 

Gisting

Við pöntun á gistihúsnæði í gegnum veraldarvefinn, hvort heldur á hótelherbergi, herbergi, íbúð eða húsi, er mikilvægt að fullvissa sig um að viðkomandi aðili sé trúverðugur. Mælt er sterklega með því að borga aldrei fyrir gistingu með bankamillifærslu eða peningamillifærslu (t.d. Western Union). Sjá hér frekari ráðleggingar á ensku frá lögreglu Lundúna (Metropolitan Police).

Einnig er að finna nytsamlegar upplýsingar á opinberri heimasíðu Ólympíuleikana London 2012. Mælt er með þessari síðu fyrir þá sem hyggjast fara á leikana.

Fyrir frekari upplýsingar vinsamlegast skoðið „spurt og svarað,“ og „hagnýtar upplýsingar“ fyrir Íslendinga hér fyrir neðan.

Tenglar:

Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins (hagnýtar upplýsingar fyrir þá sem ætla sér að ferðast erlendis).

Heimasíða Ólympíuleikanna í London

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands

Ólympíuvika ÍSÍ (Hér er einnig að finna upplýsingar um þá Íslendinga sem hafa unnið sér inn þátttökurétt á Ólympíuleikunum í London)

 

Spurt og svarað

Algengar spurningar og svör fyrir þá sem hyggjast dvelja í London á meðan Ólympíuleikunum stendur

 1. Hvað geri ég ef ég týni vegabréfinu mínu?

Vinsamlega tilkynnið sendiráði Íslands í London (sjá neðst) að vegabréfið hafi glatast/verið stolið og hafið einnig samband við næstu lögreglustöð.

 1. Hvað geri ég ef sendiráðið er lokað?

Ef sendiráðið er lokað er hægt að hringja í neyðarnúmer utanríkisþjónustunnar í síma: +354 545-9900.

 1. Er ég sjúkratryggður á meðan dvöl minni stendur? Þarf ég að sækja um sérstaka sjúkratryggingu?

Já, íslenskir ríkisborgarar sem sjúkratryggðir eru á Íslandi eiga rétt til heilbrigðisþjónustu sem telst nauðsynleg meðan á tímabundinni dvöl stendur á Bretlandi. Mælt er með því að sækja um evrópska sjúkratryggingakortið sem er gert hér

 1. Þarf ég að láta utanríkisráðuneytið vita áður en ég ferðast til Bretlands?

Þess er ekki krafist en getur verið gott þar sem ráðuneytið getur þá haft samband við þig, t.d. í neyðaraðstæðum. Hægt er að skrá sig á heimasíðu ráðuneytisins.

 

Hagnýtar upplýsingar fyrir Íslendinga

Ólympíuleikarnir í London verða haldnir frá 27. júlí til 12. ágúst. Ólympíumót fatlaðra standa yfir 29. ágúst til 9. september. Stór hluti keppnisgreina fara fram í Stratford hverfinu í austurhluta London þar sem Ólympíuleikvangurinn og Ólympíuþorpið eru staðsett.

 

Öryggi

London er stórborg og hefur því sína kosti og galla en að öllu jöfnu er nokkuð öruggt að ferðast þar. Þó er mikilvægt að vera vel vakandi og passa upp á sjálfan sig og eigur sínar. Mikilvægt er að kynna sér almennar varúðarráðstafanir og fylgja ákveðnum einföldum reglum í háttsemi sem byggjast á almennri skynsemi og fyrirhyggju (sjá fyrir neðan).

Hér er að finna nokkur ráð sem auka geta öryggi ferðamanna.

 • Virðið lög og reglur viðkomandi lands.
 • Sýnið yfirvöldum almenna kurteisi.
 • Varist vasa- og töskuþjófa, sérstaklega í og við keppnisstaði, í samgöngutækjum og á veitingahúsum.
 • Hafið ávallt meðferðis hlaðinn farsíma.
 • Hafið ávallt skilríki, peninga, greiðslukort, farsíma, myndavél, skartgripi o.s.frv. á öruggum stað.
 • Verið ávallt meðvituð um nánasta umhverfi. Ef ykkur finnst ógnað eða finnið fyrir óöryggi, gangið í aðra átt eða farið á stað þar sem fólk er að finna eins og hótel og verslanir.

 

Öryggi við Ólympíuleikvang og keppnisstaði.

 • Allir verða að fara í gegnum öryggisleit við innganginn.
 • Öryggisleitin verður svipuð eins og í flugvallaröryggishliðum.
 • Ekki má hafa vökva meðferðis umfram 100 ml.
 • Einungis má hafa meðferðis litlar handtöskur.
 • Á heimasíðu Ólympíuleikana í London  er að finna ítarlegar  upplýsingar um öryggi, þ.á m. lista yfir þá hluti sem ekki má hafa meðferðis.

 

Það sem hafa ber í huga áður en haldið er til Ólympíuleikana í London 2012

 • Að gildistími vegabréfs þíns vari allan tímann sem þú ert á Bretlandi.
 • Skrifaðu niður á blað mikilvæg símanúmer (sendiráð Íslands í London, samferðafólk, tengiliði á Íslandi o.s.frv.). Hafðu þessi númer einnig í farsímanum.
 • Gerðu nákvæma ferðaáætlun áður en haldið er utan. Taktu síðan afrit ef henni og öðrum mikilvægum skjölum sem ferðast á með og skildu þau eftir heima hjá ættingjum eða vinum.
 • Hafðu meðferðis afrit af vegabréfinu þínum og geymdu á öruggum stað á hótelinu eða þar sem gist er. Betra er að ferðast með afritið innan London í stað vegabréfsins til að koma í veg fyrir að vegabréfinu sé stolið.
 • Mundu að einungis er hægt að nota VISA greiðslu- og debetkort og peninga á keppnissvæðum Ólympíuleikanna.
 • Hægt er að láta utanríkisþjónustuna vita um brottför. Þannig getur þjónustan haft samband ef þörf krefur, t.d. ef neyðarástand myndast. Skráning fer fram á heimasíðu utanríkisráðuneytisins.

 

Á meðan ferð stendur

 • Geymdu ávallt mikilvæg gögn þ.m.t. vegabréf, peninga og greiðslukort í handfarangri og á öruggum stað.
 • Skildu farangurinn aldrei eftir á glámbekk.

 

Að ferðast frá flugvelli til London

Athugaðu hvernig þú hyggst ferðast á dvalarstað við komu. Flogið er frá Keflavík til fjögurra flugvalla í London: Heathrow, Stansted, Luton og Gatwick. Allir þessir flugvellir hafa góðar samgöngur til London. Hægt er að nálgast upplýsingar um almenningssamgöngur á:

www.getaheadofthegames.com, www.tfl.gov.uk eða www.nationalrail.co.uk.

 • Ef lent er á Heathrow, er hægt að taka lest (Heathrow Express) til Paddington Station. Einnig er hægt að taka neðanjarðarlest frá Heathrow (Piccadilly Line) til miðborgarinnar sem er jafnframt ódýrari kostur.
 • Ef lent er á Stansted, er hægt að taka rútu (National Express) sem fer til Finchley Road, Liverpool Street eða Victoria. Einnig er möguleiki að taka Easybus til Baker Street. Að lokum er hægt að taka lestina (Stansted Express) til Liverpool Street stöðvarinnar.
 • Ef lent er á Luton, er hægt að taka rútu (Green Line) sem stoppar við Finchley Road en einnig er hægt að taka lestina (Thameslink) til Kings Cross stöðvarinnar.
 • Ef lent er á Gatwick, er hægt að taka Gatwick Express lestina til Victoria lestarstöðvarinnar eða til London Bridge. Mun ódýrari kostur er þó að taka National Rail til Victoria eða London Bridge stöðvanna. 
 • Leigubifreiðar frá Gatwick inn í miðborg Lundúna er einnig valkostur, sérstaklega ef nokkrir eru að ferðast saman.
 • Hægt er að taka bílaleigubíl á flugvöllunum en athuga ber að á Bretlandi er keyrt vinstramegin á veginum og að fjölmargir vegir verða lokaðir í tengslum við Ólympíuleikana eða umferð um þá takmörkuð. Þar af leiðandi er ekki mælt með því að fólk keyri um á bíl í borginni á meðan Ólympíuleikunum stendur.
 • Neðanjarðarlestirnar eru jafnan öruggur ferðamáti en þær eru vaktaðar með öryggismyndavélum. Sömu sögu er að segja af strætisvögnum en öryggisgæsla í almenningssamgöngum verður efld til muna á meðan leikunum stendur.

 

Annar ferðamáti:

 • Ráðlagt er að notast einungis við viðurkennda leigubíla, svokallaða „Black Cabs“ sem eru fjölmargir á götum borgarinnar. Fyrir þá sem ekki vilja treysta á veifa þeim til sín, er hægt að hringja og panta bíl í síma: +44 871 871 8710.
 • Í miðbæ Lundúna er víðsvegar að finna almenningshjól, svokölluð „Boris hjól,“ sem hægt er að leigja tiltölulega ódýrt í skamman tíma og henta því vel fyrir styttri vegalengdir. Ekki er leyfilegt að hjóla á gangséttum og hafa ber því í huga að umferðin í London getur verið varasöm. Öryggisins vegna er gott að hafa hjálm og endurskinsvesti. Allar upplýsingar um hjólin og leiguskilmála er að finna á heimasíðu Transport for London.

 

Annað sem hafa ber í huga:

 • Forðastu aðstæður sem geta skert dómgreind þína (t.d. með notkun áfengis og vímuefna).
 • Fylgstu með fréttum í útvarpi eða sjónvarpi varðandi ráðleggingar í neyðaraðstæðum.
 • Fylgdu ráðleggingum staðaryfirvalda.
 • Sýndu staðaryfirvöldum almenna kurteisi.
 • Fylgdu landslögum og reglum.
 • Vertu ætíð kurteis og hógvær.
 • Vertu alltaf meðvitaður um hvar þú ert og hafðu meðferðis  nafn og heimilisfang hótelsins eða gististaðs.
 • Vertu meðvitaður um nánasta umhverfi. Ef þú finnur fyrir óöryggi, leitaðu hjálpar eða farðu á öruggan stað (t.d. hótel, verslun eða lögreglustöð).
 • Hafðu meðferðis farsíma þannig þú getir hringt í einhvern ef þér finnst þér vera ógnað.
 • Hafðu í huga hvar öryggisvörður er staðsettur þar sem þú gistir.
 • Forðastu almenningsgarða eftir myrkur og reyndu eftir fremsta megni að ferðast með öðrum.
 • Forðastu svæði og aðstæður sem gætu hugsanlega verið hættulegar.
 • Geymdu vegabréf, peninga og verðmæti á öruggum og óáberandi stað.
 • Ef yfirvöld setja þér skorður er varðar ferðir um borgina er mikilvægt að fylgja þeim.

 

Hættulegar aðstæður, til dæmis ógnir og götuglæpir

Það er erfitt að gefa almenn ráð varðandi rétt viðbrögð í hættulegum eða ógnandi aðstæðum vegna þess að viðbrögð verða að vera í samræmi við alvarleika ógnarinnar og eigin reynslu, aðstæður og líkamlega getu en almennt skalt þú:

 • Komast í burtu frá ógnandi aðstæðum og á öruggan stað.
 • Halda ró þinni og eftir fremsta megni vera hógvær og kurteis.
 • Draga að þér athygli annarra ef þú kemst ekki út úr þessum aðstæðum.
 • Verða við kröfum glæpamanna og afhenda það sem þeir biðja um. Mundu að betra er að tapa veskinu en lífinu.

 

Millifærslur

Það eru margir bankar og hraðbankar (ATMs) í London þar sem hægt er að taka út peninga hvort heldur með greiðslu- eða debetkorti. Ítrekað er mikilvægi þess að gæta að því að ókunnugir sjái ekki pin-númer ykkar. Teljið ekki peningana við hraðbankann heldur komið þeim skjótt fyrir á öruggum og óáberandi stað. Einnig er hægt að millifæra peninga hratt með Western Union. Sjá: www.westernunion.co.uk. Annar möguleiki er að senda peninga með svokölluðu moneygram en pósthúsin sjá um þá þjónustu. Bæði Íslandsbanki og Pósturinn sjá um millifærslur með moneygram. Sjá:

http://www.postoffice.co.uk/finance/making-payments/moneygram-cash-transfers.

Öll stærstu hótel og langflestar verslanir og veitingahús taka við greiðslukortum. Aftur á móti er góð hugmynd að hafa meðferðis peninga fyrir leigubíla og minjagripaverslanir. Þú ættir ekki að hafa stórar fjárhæðir á þér.

 

Minnislisti

 • Farsími, hleðslutæki og auka rafhlaða.
 • Vegabréf.
 • Sjúkra- og vátryggingarskírteini.
 • Greiðslukort.
 • Ökuskírteini.
 • Skilja eftir afrit af ferðaupplýsingum hjá fjölskyldu heima fyrir.
 • Afrit af vegabréfi.

 

Sendiráð Íslands í London

2A Hans Street,

London, SW1X 0JE

Sími: +44 (0) 2072593999; Frá Íslandi: 545-7880

Vefpóstur: icemb.london@utn.stjr.is

Vefsíða: www.iceland.is/uk

Facebook: Embassy of Iceland in London

Opnunartími: Mánudaga til föstudaga: 9:00-16:30

Neyðarnúmer utanríkisþjónustunnar (utan opnunartíma): +354 545-9900

Video Gallery

View more videos