Einar Már Guðmundsson hlýtur norræn bókmenntaverðlaun

Einar Már Guðmundsson rithöfundur tók við Norrænu bókmenntaverðlaunum Sænsku akademíunnar við hátíðlega athöfn í húsakynnum akademíunnar í Stokkhólmi miðvikudagskvöldið 11. apríl sl.

Norrænu bókmenntaverðlaun Sænsku akademíunnar, sem gjarnan eru kölluð “Litli Nóbelinn”, voru fyrst veitt á  tvöhundruð ára afmælishátíð Sænsku akademíunnar árið 1986 og hafa síðan verið árlegur viðburður.  Til verðlaunanna var stofnað fyrir tiltilli peningagjafar úr styrktarsjóði sænsku hjónanna Karin og Karl Ragnar Gierows, sjá hér og hér.

Verðlaunin þykja einn mesti heiður sem norrænum rithöfundi getur hlotnast.  

Peter Englund aðalritari Sænsku akademíunnar setti athöfnina.  Þá fluttu ræður tveir af meðlimum akademíunnar og kynntu þar Einar Má og verk hans; þau Lotta Lotass rithöfundur og Bo Ralph prófessor.  Svo afhenti Horace Engdahl framkvæmdastjóri Sænsku akademíunnar Einari Má verðlaunin, en þeim fylgja auk upphefðarinnar 350.000 sænskar krónur.  Loks flutti Einar Már þakkarræðu sem hann nefndi “Mitten befinner sig under dina fotsulor”.

Einar Már Guðmundsson er þriðji íslenski rithöfundurinn sem hlýtur verðlaun þessi, en áður hlutu þau Thor Vilhjálmsson árið 1992 og Guðbergur Bergsson árið 2004.

Mikið fjölmenni var við athöfnina og meðal viðstaddra voru eiginkona Einars Más, sendiherra Íslands í Svíþjóð og þýðendur verka Einars Más í Svíþjóð og Danmörku, svo nokkrir séu nefndir.

Hér er að finna hlekk á frétt á vef Sænsku akademíunnar af viðburðinum:  http://www.svenskaakademien.se/en

 

 

Video Gallery

View more videos