Rakel McMahon sýnir í Stokkhólmi

Knattspyrna sem félagsleg athöfn og vettvangur til samskipta eru viðfangsefni málverkaseríunnar View of Motivation eftir Rakel McMahon. Leikurinn, leikmenn og áhorfendur verða að myndlíkingu fyrir mun víðara samhengi; s.s. kynímyndir, kynhneigð og staðalímyndir. Í verkinu nýtir Rakel sér ljósmyndir af leikmönnum á leikvellinum og rýnir í líkamstjáningu og samskipti leikmanna. Rakel flytur leikmennina yfir í hlutlaust en jafnframt tvírætt samhengi. Þessi smávægilega breyting kúvendir upprunalegri ímynd leikmannsins sem breytir samtímis ímynd og hlutverki áhorfandans.

Myndmál myndlistar og heimur knattspyrnu verða að snertifleti sem skapar núning og kemur með óhefðbundinn vinkil inn í jafnréttisumræðuna. Um leið og Rakel leitast við að afhjúpa samfélagslega orðræðu um kyn, kynímyndir og kynhneigð beinir hún sjónum okkar að viðkvæmum hvötum og mannlegum tilfinningum. Sýningarstjóri er Ingunn Eyþórsdóttir.

Rafræna sýningarskrá má nálgast hér.

Sýningin opnar 29. apríl og stendur til 22. maí. Opnun 29. apríl kl. 18-20.

Nau Gallery

Hudviksvallsgatan 4b

Stokkhólmur

Svíþjóð

 

Opnunartímar

Þriðjudaga-föstudaga 12.00-18.00

Laugardaga 12:00-16:00

 

naugallery.se

rakelmcmahon.is

 

Um listamanninn

Rakel McMahon fæddist í Reykjavík árið 1983. Hún lauk BA í myndlist og MA í listkennslufræði frá Listaháskóla Íslands, auk diplóma í hagnýtri jafnréttisfræði frá Háskóla Íslands. Rakel hefur komið að stofnun, skipulagningu og rekstri fjölda verkefna og viðburða á sviði menningar og listar, bæði hér á landi og erlendis. Þá hefur hún haldið einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga. Má þar nefna sýningar í Þoku, Kling & Bang og Sequences í Reykjavík, auk ýmissa samsýninga og samstarfsverkefna erlendis; þ.á.m. í Varsjá, Berlín, Edinborg, Kaupmannahöfn og Helsinki. Rakel er fyrrum stjórnarmeðlimur Sequences listahátíðar í Reykjavík og situr nú í stjórn Nýlistasafnsins.

Um sýningarstjóra

Ingunn Eyþórsdóttir fæddist í Reykjavík árið 1982. Hún lauk BA í félags- og fjömiðlafræði og MA í hagnýtri ritstjórn og útgáfu frá Háskóla Íslands. Frá útskrift hefur hún unnið sem sjálfstætt starfandi blaðamaður, en skrif hennar snúast fyrst og fremst um myndlist nútímans og menningu líðandi stundar. Hún var stofnandi og ritstjóri Konsthopp, vefmiðils um norræna myndlist og fyrrverandi meðlimur í Artíma gallerí, sem er sýningarrými rekið af listfræðingum í Reykjavík. Þá hefur hún komið ýmis konar bókaútgáfu, ritstýringu og viðburðarstjórnun. Síðast starfaði hún sem ritstjóri og kynningarfulltrúi fyrir HönnunarMars 2014 en hátíðin er haldin árlega og er helsti kynningarvettvangur hönnunar á Íslandi. 

Video Gallery

View more videos