Saga sendiráðsins

Sendiráð Íslands í Noregi var opnað 19. júní 1947 og var Gísli Sveinsson, áður sýslumaður og forseti Alþingis, fyrsti sendiherrann sem hafði aðsetur í Osló. Á tímabilinu 1947 – 2014 hafa fimmtán sendiherrar þjónað  í Noregi.

Stofnun sendiráðsins átti sér nokkurn aðdraganda:

 Í ársbyrjun 1934 var ákveðið að láta reyna á það ákvæði 7. greinar sambandslaga Íslands og Danmerkur að skipa mætti við danskt sendiráð „ráðunauta með þekkingu á íslenskum högum“, en þá hafði um skeið verið um það rætt að Ísland þyrfti að hafa fulltrúa í Osló.  Fyrir valinu varð Vilhjálmur Finsen, áður ritstjóri og annar tveggja stofnenda Morgunblaðsins, en hann var þá búsettur í  Osló og vann við blaðamennsku. Vilhjálmur fékk skipun sem starfsmaður við danska sendiráðið í Osló 30. janúar 1934 og tók þar við störfum í byrjun apríl með starfsheitinu aðstoðarmaður („attaché“). Meðal helstu starfa Vilhjálms var upplýsingaöflun á sviði viðskiptamála.

Vilhjálmur starfaði um sex ára skeið í sendiráði Danmerkur. Eftir að Þjóðverjar höfðu náð öllum Noregi á vald sitt í júní 1940, tóku þeir að þjarma að erlendum sendiráðsmönnum sem eftir voru í Osló, banna þeim skeytasendingar og ritskoða póst þeirra. Hinn 15. júlí 1940 fékk Vilhjálmur, ásamt  fulltrúum ýmissa annarra ríkja fyrirskipun frá Þjóðverjum um að hverfa úr landi. Öllum sendiráðum í Osló var lokað að kröfu Þjóðverja, en hlutlaus eða vinveitt ríki gátu haft þar ræðisskrifstofu, þ.á m. Danmörk.

Eftir að Vilhjálmur fór frá Osló tók danska ræðisskrifstofan að sér að annast fyrirgreiðslu við Íslendinga í Noregi á meðan á styrjöldinni stóð, en Vilhjálmur gat haft símasamband við dönsku ræðismennina eftir að hann varð  sendifulltrúi Íslands  í Stokkhólmi.

Hinn 20. desember 1940 var Pétur Benediktsson skipaður sendifulltrúi hjá norsku útlagastjóninni í London og hafði hann þá stöðu jafnframt sendifulltrúastöðunni í Bretlandi.  Hann var skipaður sendiherra í Bretlandi 13. desember 1941 og sendiherra hjá norsku stjórninni 4. maí 1942.

Stefán Þorvarðarson tók við af Pétri sem sendiherra hjá norsku stjórninni 31. janúar 1944. Hann heimsótti Noreg í maí 1945 og fór þess á leit við dönsku ræðismennina að þeir héldu áfram fyrirgreiðslu við Íslendinga uns íslenskt sendiráð yrði stofnað í Osló.  Í annarri ferð til Osló í september 1946 kannaði Stefán húsnæðismarkaðinn, þar eð til athugunar var að stofna íslenskt sendiráð í Osló. Í þeirri ferð skýrði hann Halvard Lange utanríkisráðherra frá því að íslenskur sendiherra yrði fljótlega skipaður hjá norsku stjórninni með búsetu í Osló. Hinn 19. júní 1947 var Gísli Sveinsson skipaður sendiherra í Noregi, eins og áður greinir. (Framangreindar upplýsingar byggja að miklu leyti á þriggja binda verki Péturs J. Thorsteinssonar um sögu utanríkisþjónustunnar).

Sendiráð Íslands  var opnað á Grand Hótel í miðborg Osló í júlí 1947, en afhending trúnaðarbréfsins fór fram í sama mánuði.  Skrifstofur sendiráðsins voru á Grand Hótel fram í apríl 1948, en þá voru þær fluttar á Torstedshjørnet við Stortingsgata 30. Í því húsi, sem byggt var 1934, hafa skrifstofurnar verið fram á þennan dag.  Staðsetning sendiráðsins er eins og best verður á kosið, andspænis norska utanríkisráðuneytinu og konungshöllinni. Sendiráðið hafði upphaflega þrjú herbergi á fimmtu hæð hússins, en flutti tímabundið á fjórðu hæð, áður en það  flutti á áttundu og efstu hæð hússins 1991.

Húsnæði sendiráðsins er 158.5 fm að flatarmáli, forstofa, sameiginlegt rými, tvö stærri herbergi, eldhús, skápaherbergi og geymsla.

Fyrirsvar sendiráðsins 

Sendiráðið hefur fyrirsvar gagnvart eftirfarandi ríkjum,  auk Noregs: Grikklandi, Egyptalandi, Íran, Pakistan og Afganistan.

Sendiráð annara ríkja gagnvart Íslandi í Osló 

Í ársbyrjun 2014 hafa eftirtalin 33 ríki sendiráð gagnvart Íslandi í Osló: Afganistan, Argentína, Belgía, Bosnía og Hersegóvína, Brasilía, Búlgaría, Búrúndí, Egyptaland, Eistland, Fillipseyjar, Grikkland, Holland, Indónesía, Íran, Ísrael, Ítalía, Kórea, Lettland, Marokkó, Pakistan, Palestína, Portúgal, Pólland, Serbía, Síle, Slóvakía, Spánn, Suður Afríka, Sviss, Tékkland, Tyrkland, Ungverjaland og Venesúela.  

Sendiherrar frá upphafi

            Pétur Benediktsson (sendifulltrúi 20.12.40-04.05.42 og sendiherra 04.05.42-31.01.44 hjá ríkisstjórn Noregs í London), Stefán Þorvarðarson (31.01.44 - 30.06.47 hjá ríkisstjórn Noregs í London), Gísli Sveinsson (01.07.47 - 28.05.51), Bjarni Ásgeirsson (28.05.51 - 15.06.56), Haraldur Guðmundsson (05.04.57 - 01.07.63), Hans G. Andersen (01.07.63 - 31.08.69), Agnar Kl. Jónsson (01.09.69 - 02.03.76), Árni Tryggvason (02.03.76 - 15.05.79), Páll Ásgeir Tryggvason (15.05.79 - 17.01.85), Niels P. Sigurðsson (17.01.85 - 11.05.89), Haraldur Kröyer (11.05.89 - 07.03.91), Einar Benediktsson (07.03.91 - 16.09.93), Eiður Guðnason (16.09.93 - 26.01.99), Kristinn F. Árnason (26.01.99 - 24.09.03), Stefán Skjaldarson (24.09.03 - 21.08.08), Dr. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir (21.08.08 - 01.02.11) og Dr. Gunnar Pálsson (01.05.11 - 19.06.2015). Hermann Örn Ingólfsson (20.08.2015 -)
 

Video Gallery

View more videos