Embættisbústaður Íslands

Langviksveien 6

Bygdøy

Á fyrstu árum sendiráðsins í Osló bjuggu sendiherrar  ýmist á gistihúsi eða í leiguhúsnæði. Árið 1952 keypti íslenska ríkið embættisbústað  á Bygdøy og hafa sendiherrar búið þar síðan og notað bústaðinn til móttökuhalds. Bygdøy er nes mikið sunnan við borgina og er mjór vogur, Frognerkilen, á milli. Bústaðurinn er austarlega á nesinu, skammt frá Víkingaskipshúsunum, byggðasafni Noregs  og sumarbústað konungshjóna, Bygdøy kongsgård.

Bústaðurinn, Ekhaugen við Langviksveien 6, var keyptur í sendiherratíð Bjarna Ásgeirssonar (1951 – 1956), en þá gegndi Eysteinn Jónsson starfi fjármálaráðherra. Eysteinn þótti aðhaldsamur, en þar sem Noregur átti í hlut, gaf hann fyrirmæli um að vandað skyldi til kaupanna.  Húsið hefur síðan verið mikilvæg umgjörð samskipta Íslands og Noregs. Þar hafa mikilvægir fundir farið fram og þar hefur verið tekið á móti mörgum gestum, m.a. úr stjórnmála- og viðskiptalífi. Húsið er eini upprunalegi bústaðurinn sem eftir er í utanríkisþjónustunni.

Húsið var líklega byggt á árunum 1907 – 1911 og samkvæmt því hundrað ára 2011.  Iðjuhöldurinn Johan Throne Holst (1868 – 1946) byggði húsið og var það keypt af afkomendum hans og eftirlifandi eiginkonu, Hönnu, sem féll frá 1952. Í grein sem birtist í jólablaði Fálkans 1953, árið eftir að húsið var keypt kemur fram að synir Throne Holst, hafi heldur viljað selja húsið vægu verði en láta það ganga kaupum og sölum á markaði og eiga þannig á hættu að það lenti í braski eða yrði nítt niður. Megi því með fullum rétti segja, að íslenska ríkið „hafi fengið tækifæriskaup á þessu stórmyndarlega húsi“.

Eftir efnahagshrunið á Íslandi haustið 2008, skýrði bandaríska stórblaðið Wall Street Journal frá því vorið eftir að íslenska ríkið hefði í hyggju að selja nokkra sendiherrabústaði, þ. á m. í Osló.  Fréttin birtist í norska dagblaðinu Verdens Gang og þar haft eftir utanríkisráðuneytinu í Reykjavík að til stæði að  selja bústaðinn svo lengi sem viðhlítandi verð fengist fyrir hann. Bústaðurinn fór ekki á markað og var horfið frá áformum um sölu hans.

Merkur frumkvöðull

Throne Holst, brautryðjandi í norsku atvinnulífi og samfélagshugsun, var stofnandi súkkulaðiverksmiðjunnar Freia árið 1889 og leiðtogi í norsku viðskiptalífi, m.a. stofnandi og síðar formaður Samtaka iðnaðarins. Hann sat um tíma á þingi fyrir frjálslynda hægrimenn, en tók síðar sæti í borgarstjórn,  þar sem hann kunni betur við sig. 

Throne Holst aðhylltist það sjónarmið að allir ættu að hafa jöfn tækifæri í atvinnulífinu og var hann fyrstur til að bjóða jafnt verkamönnum sem öðrum starfsmönnum hlutabréf í fyrirtæki sínu. Hann fékk Edvard Munch til að mála veggmyndir í borðsal starfsfólksins og þar stóð hann fyrir fyrirlestrum og tónleikum. Einnig beitti hann sér fyrir því að stofnað var sérstakt embætti í næringarfræði við Oslóarháskóla. Loks var hann mikill garðunnandi og lét búa til sérstakan garð fyrir starfsfólk við verksmiðju sína. Garðurinn, með fjölda höggmynda, er í ny-moderne stíl, líkt og Vigelandsparken, og hefur verið vel við  haldið.

Í Ekhaugen tók Throne Holst um árabil á móti viðskiptamönnum sínum, stjórnmálamönnum og stórfjölskyldu, sem m.a. safnaðist þar saman hvern jóladag.

Bústaðurinn

Ekhaugen er reisulegt timburhús, tvílyft með þakhæð og steinsteyptum kjallara. Grunnflötur þess er um 250 fm., en húsið allt 650 fm. Þakhæð/háalofti er skipt niður í nokkur geymslurúm. Á efri hæð eru fimm herbergi, tvö stærri baðherbergi, eitt minna, og eitt fataherbergi, ásamt göngum og forsal, tengdum með stiga við forsal á neðri hæð. Þrennar svalir, tvennar stórar og ein minni, eru í sambandi við herbergi og ganga á efri hæð.  Á neðri hæð er forstofa með marmaragólfi og marmaraklæddum veggjum að neðanverðu. Inn af forstofunni tekur við rúmgóður forsalur  og er uppgegnt þaðan á efri hæðina. Úr forsalnum eru einnig dyr inn að eldhúsganginum og inn í bókasafn og enn aðrar inn í aðalstofuna. Í henni er opinn arinn úr marmara. Þetta er stærsta stofan í húsinu, um 50 fermetrar. Inn af henni er borðstofan, en veggir hennar eru þaktir ámáluðu silki með blómamunstri. Glerhurð veit að verönd úti fyrir borðstofu. Úr borðstofunni eru einnig dyr að eldhúsi. Undir húsinu er kjallari, hólfaður sundur í geymslur, búr, eldhús, lítið baðherbergi, þrjú önnur herbergi, tankklefa og kyndiklefa. Sjálfvirk olíukynding hitar miðstöðvarkerfið. Tveir bílskúrar eru við annað innkeyrsluhliðið á lóðinni.

Garðurinn

Throne Holst lét ekki undir höfuð leggjast að gera fallegan garð við heimili sitt, í ny-moderne stíl, líkt og garðinn við verksmiðju hans. Garðurinn liggur að tveimur götum, Langviksveien og Fredriksborgveien, en húsið stendur á hornlóð. Hún er um 3000 fermetrar, prýdd gróður- og aldintrjám, en sléttur grasflötur í miðju.

Í garðinum voru að sögn upphaflega um 70 tré af um 20  mismunandi tegundum. Af aldinum uxu þar epli, perur og plómur, en einnig kirsuber.  Blómaskrúð er þar mikið og hefur klifurviði og rósabeði  við vesturhlið hússins verið við haldið.

Upphaflegar gangstéttar og hellur í garðinum eru nú í slæmu ástandi og hluti grindverks þarfnast  endurnýjunar.

Handbragð listamanns

Handverk hins fjölhæfa íslenska listamanns Guðmundur Einarssonar frá Miðdal (1895 – 1963)  setur svip á bústaðinn, en Guðmundur var vinur Bjarna Ásgeirssonar sendiherra og dvaldi um lengri eða skemmri tíma hjá honum á tímabilinu 1952 – 1956.

 Gosbrunnur, hannaður af  Guðmundi, er andspænis veröndinni fyrir borðstofudyrum bústaðarins, krjúpandi hafmey með stórfisk  í fanginu. Þessi fallega stytta Guðmundar frá árinu 1958 er um 150 cm á hæð, en gosbrunnurinn er ekki lengur tengdur.

Við aðalinnkeyrslu tróna málmsteypt líkneski af íslenskum torfbæ með handbragði Guðundar sitt hvoru megin við hliðið og þjóna sem luktir. Í garðinum standa einnig þrír tvíhöfða ljósastaurar, tveir þeirra við innkeyrslu, og er hugsanlegt að þeir hafi einnig verið hannaðir af Guðmundi.

Hermt er að Guðmundur hafi komið við sögu við hönnun garðskála bústaðarins, þrjár burstir í torfbæjarstíl, sem þaktar eru klifurviði.

Nokkur listaverka Guðmundar setja svip á bústaðinn innanhúss; sex leirmunir listamannsins  og tvö olíumálverk, hvort tveggja  í eigu sendiráðsins.

Ósennilegt er að listfengi Guðmundar frá Miðdal sjáist víða merki í jafn stórum stíl og í bústað íslenska ríkisins í Osló, en á árinu 2013 voru liðin 50 ár frá því listamaðurinn féll frá. Árið 2011 færði forseti Alþingis sendiráðinu að gjöf  bókina Listvinahús, með myndum af leirmunum Guðmundar frá tímabilinu 1930 – 1956, og er hún varðveitt  í bústaðnum.

Video Gallery

View more videos