Þátttaka Íslands

Þátttaka Íslands í starfsemi NATO er fjölþætt. Fulltrúar Íslands taka þátt í ákvarðanatöku og stefnumörkun bandalagsins. Jafnframt tekur Ísland þátt í friðargæsluverkefnum þess.

Auk þátttöku í ráðherrafundum Atlantshafsbandalagsins hefur Ísland á að skipa fastanefnd í höfuðstöðvum NATO í Brussel. Starfsmenn hennar sinna hagsmunagæslu og þátttöku í nefndum bandalagsins. Þar á meðal eru Norður-Atlantshafsráðið (NAC), hermálanefndin (Military Committee), Evró-Atlantshafsráðið (EAPC), NATO-Rússlandsráðið (NRC), NATO-Úkraínunefndin (NUC), auk ýmissa pólitískra nefnda og varnarmálanefnda.

Ísland tekur jafnframt þátt í samstarfi í þágu friðar (PfP), samstarfsnefndum NATO, samstarfi NATO á sviði vísinda og samfélagsmála sem lítur fyrst og fremst að aðstoð við nýju aðildarríkin, samstarfi á sviði almannavarna, herlæknanefnd NATO, og nefndum um skipti á trúnaðarupplýsingum.

Alþingi Íslands skipar fulltrúa í þingmannanefnd NATO.

Bandalagsríkin hafa hvert sinn fulltrúa í herstjórnarmiðstöð bandalagsins í Mons í Belgíu (SHAPE) sem sinna daglegum samskiptum við herstjórnina. Ísland skipaði þar fulltrúa í fyrsta sinn árið 2004.

Ísland tekur þátt í friðargæsluaðgerðum NATO. Mest er framlag Íslands til ISAF í Afganistan. Á tímabilinu 2004 - 2005 fór Ísland með yfirumsjón með rekstri flugvallarins í Kabúl, það tekur þátt í endurreisnarteymi bandalagsins í Chaghcharan, íslensk stjórnvöld aðstoða afgönsk stjórnvöld við yfirtöku flugvallarins í Kabúl, auk þess sem Ísland hefur lagt til flugumferðarstjóra og tæknimenn á flugvellinum ásamt ráðgjafa á skrifstofu sérlegs fulltrúa framkvæmdastjóra NATO í Afganistan.

Í Kosovó hefur Ísland farið með umsjón á rekstri flugvallarins í Pristina og þjálfun starfsliðs í flugumferðarstjórn og þannig aðstoðað KFOR bæði beint og óbeint. Til þjálfunarverkefnis NATO í Írak hefur Ísland lagt bæði upplýsingafulltrúa og peningaleg framlög. Starfsmenn sem þátt taka í þessum verkefnum eru á vegum Íslensku friðargæslunnar.

Ísland hefur jafnframt tekið þátt í mannúðaraðgerðum NATO með framlögum til loftflutninganna á hjálpargögnum til Pakistan í kjölfar jarðskjálftanna í október 2006.

Video Gallery

View more videos