Starfsemi Atlantshafsbandalagsins

Atlantshafsbandalagið er bandalag 26 ríkja í Evrópu og N-Ameríku. Það er öryggis- og varnarbandalag og starfar í samræmi við Atlantshafssáttmálann (sem einnig er kallaður Washington sáttmálinn) sem var undirritaður 1949 í Washington af stofnríkjum bandalagins, en Ísland er eitt þeirra. Höfuðstöðvar Atlantshafsbandalagins eru í Brussel og herstjórnarmiðstöð þess í Mons í suðurhluta Belgíu. Að auki eru svæðisherstjórnir í Brunssum í Hollandi, Lissabon í Portugal og Napóli á Ítalíu.

Framkvæmdastjóri bandalagsins er Anders Fogh Rasmussen

Hlutverk bandalagsins er að tryggja öryggi bandalagsríkja og hefur 5. grein Washington sáttmálans um að árás á eitt ríki sé árás á þau öll verið hornsteinn bandalagins í meira en 50 ár. Öryggisumhverfi bandalagins hefur hins vegar breyst frá tímum Kalda stríðsins. Breytt öryggisumhverfi og nýjar ógnir svo sem útbreiðsla gjöreyðingarvopna og hryðjuverk hafa breytt áherslum í bandalaginu. Í dag beinist starfsemi þess ekki síst að friðargæslu og baráttunni gegn hryðjuverkaógninni og margvíslegri samvinnu við hin ýmsu ríki í Evrópu og Miðausturlöndum einkum er varðar varnar- og öryggismál.

Æðsta ákvörðunarvald bandalagins liggur hjá Norður Atlantshafsráðinu (NAC: North Atlantic Council) þar sem sendiherrar aðildarríkjanna hittast vikulega. Að auki eru haldnir utanríkisráðherrafundir tvisvar sinnum á ári og varnarmálaráðherrafundir þrisvar á ári. Leiðtogafundir eru jafnframt haldnir reglulega.

Bandalagið er öryggis- og varnarbandalag sem styðst við ráðgjöf hermálanefndar (Military Committee) í ákvörðunum um einstök mál. Hermálanefndin hefur sér starfslið, alþjóðahermálastarfsliðið, sem vinnur mál fyrir nefndina og undirbýr ákvarðanatöku. Niðurstöður hermálanefndarinnar eru síðan lagðar fyrir Norður Atlantshafsráðið til ákvörðunar.

Evró-Atlantshafsráðið (EAPC: Euro-Atlantic partnership Council) er umgjörð Atlantshafsbandalagins fyrir samvinnu við samstarfsríkin en þau eru 20 talsins, flest fyrrum lýðveldi Sovétríkjanna. Samstarf í þágu friðar (Partnership for Peace) er undir hatti Evró-Atlantshafsráðins og þar skiptast samstarfsríkin á skoðunum við bandalagið á sviði öryggis- og varnarmála og þróa með sér samstarfsáætlanir við Atlantshafsbandalagið. Ráðið hittist reglulega á ráðherrastigi í tengslum við ráðherrafundi bandalagsins.

NATO - Rússlandsráðið (NRC: NATO - Russia Council) er vettvangur fyrir skoðanaskipti bandalagsríkja og Rússlands. Undir merkjum ráðsins er unnið að verkefnum og skipst á skoðunum á sviði öryggis- og varnarmála við Rússland. Utanríkisráðherrar NATO ríkja og Rússlands hittist reglulega í tengslum við ráðherrafundi bandalagins.

NATO og Úkraína eiga einnig með sér víðtækt samstarf innan NATO – Úkraínu nefndarinnar (NUC: NATO Ukraine Commission). Í kjölfar appelsínugulu byltingarinnar í Úkraínu í desember 2004 hefur færst aukinn kraftur í þetta samstarf. Bandalagið starfar með Úkraínu á ýmsum sviðum einkum endurskipulagningu á sviði varnar- og öryggismála. Utanríkisráðherrar bandalagins og Úkraínu hittast í tengslum við ráðherrafundi bandalagins.

Árið 1994 var ákveðið að auka samráð við ríki við Miðjarðarhafið. Í upphafi gerðust Egyptaland, Ísrael, Máritanía, Marokkó og Túnis aðilar að samráðinu og síðar bættust Alsír og Jórdanía í hópinn. Reglulega eru haldnir fundir sendiherra með sendiherrum ríkjanna í Miðjarðarhafssamráðinu og hafa ráðherrar ríkjanna bæði á sviði varnar- og utanríkismála fundað síðan samráðinu var ýtt úr vör.

Á leiðtogafundi í Istanbúl 2004 var ákveðið að bjóða fleiri ríkjum í Miðausturlöndum til samstarfs og samráðs við NATO (ICI: Istanbul Cooperation Initiative). Samráðið leggur aðaláherslu á baráttuna gegn hryðjuverkum og að hefta útbreiðslu gereyðingavopna. Nú hafa Bahrain, Katar, Kúveit og Sameinuðu Arabísku furstadæmin formlega gerst aðilar að samráðsvettvangnum.

Þingmannasamtök NATO (NATO Parliamentary Assembly) er umræðuvettvangur þingmanna aðildarríkja NATO. Þar koma saman þingmenn úr löggjafaþingum í Evrópu og Norður-Ameríku til að ræða sameiginleg hagsmunamál og áherslur. Þingmannasamtökin eru óháð NATO en þau mynda þýðingarmikil tengsl á milli bandalagsins og þjóðþinga þess.

Friðargæsla er eitt af viðamestu verkefnum NATO í dag. Í kjölfar stríðsins sem fylgdi sundurliðun fyrrum Júgóslavíu, voru tugir þúsunda friðargæsluliða á vegum Atlantshafsbandalagsins á Vestur-Balkansgaga. Enn eru um 17.000 friðargæsluliðar á vegum þess í Kosovó (KFOR). Annað stærsta friðargæsluverkefni NATO er í Afganistan, en bandalagið tók á hendur ábyrgð á alþjóðlegum öryggissveitunum (ISAF) í Afganistan að beiðni Sameinuðu þjóðanna árið 2003. Um 10.000 friðargæsluliðar eru þar á vegum bandalagsins en ákveðið hefur verið að fjölga þeim í 15.000. Að beiðni Íraks sinnir NATO jafnframt þjálfun íraskra öryggissveita. Einnig hefur NATO að beiðni Afríkusambandsins komið því til aðstoðar vegna friðargæslu þess í Darfúr. Aðstoðin felst annars vegar í loftflutningum á friðargæsluliðum frá aðildarríkjum Afríkusambandsins til Darfúr og hins vegar við þjálfun á stjórnendum friðargæsluaðgerðarinnar.

Það geris jafnframt í vaxandi mæli að leitað sé til NATO um aðstoð vegna náttúruhamfara eða af mannúðarástæðum. Í kjölfar þess að Tsunami reið yfir strendur suðaustur Asíu gaf NATO bráðabirgðabrýr í eigu bandalagsins til aðstoðar uppbyggingarstarfinu í Indónesíu. Þegar fellibylurinn Katrína reið yfir suðvesturströnd Bandaríkjanna tók NATO að sér að samræma framlög frá bandalagsríkjunum og samstarfsríkjum þeirra og flytja hjálpargögn eins og matvæli, sjúkragögn og annan hjálparbúnað til Bandaríkjanna. Að beiðni pakistanskra stjórnvalda tók NATO að sér að flytja hjálpargögn til Pakistan í kjölfar jarðskjálftanna þar í október 2005. Jafnframt sendi NATO þangað verkfræðinga og sjúkrasveitir til að takast á við margvísleg viðbragðs og endurreisnarverkefni í kjölfar jarðskjálftanna.

Útgefið efni á íslensku:

Störf hjá NATO

Herstjórnarmiðstöðvar

  • SHAPE - staðsett í Mons í suðurhluta Belgíu
  • ACT  - staðsett í Norfolk í Bandaríkjunum

Svæðisherstjórnir

Video Gallery

View more videos