Utanríkisráðherrafundur NATO í Osló

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra situr utanríkisráðherrafund Atlantshafsbandalagsins sem fram fer í dag og á morgun.

Fundurinn er óformlegur vorfundur utanríkisráðherra þar sem meðal annars Afganistan og eldflaugavarnir verða til umræðu, sem og málefni Balkanskaga og stækkun Atlantshafsbandalagsins.

Utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins munu einnig funda með utanríkisráðherra Rússlands í NATO Rússlandsráðinu og með utanríkisráðherra Úkraínu í samstarfsráði bandalagsins og Úkraínu.

Í kvöld situr utanríkisráðherra kvöldverð í boði norska utanríkisráðherrans þar sem rætt verður um Kósóvó og Miðausturlönd.

Í tengslum við utanríkisráðherrafund Atlantshafsbandalagsins mun utanríkisráðherra ennfremur undirrita samkomulag um samstarf á sviði öryggis- og varnarmála og viðbúnaðar milli Íslands og Noregs, og yfirlýsingu um samstarf um öryggis- og varnarmál og almannavarnir milli Íslands og Danmerkur.

Video Gallery

View more videos