Viðskiptaþing haldið í Tokýó

Sendiráð Íslands í Japan efndi, í samvinnu við japansk-íslenska verslunarráðið í Japan, Glitni og Fjárfestingastofu Japans, til viðskiptaþings þann 4. október sl. í húsakynnum Alþjóðasamvinnubanka Japans.

            Tilgangur viðskiptaþingsins var að kynna japönskum viðskiptaaðilum tækifæri til aukinna samskipta við íslensk fyrirtæki, einkum hvað varðar sölu og markaðssetningu sjávarafurða á alþjóðavettvangi. Ennfremur var fjallað um viðskiptaumhverfið á Íslandi og beina erlenda fjárfestingu hér á landi og í Japan, en til þessa hefur ekki verið mikið um beinar fjárfestingar að ræða á milli landanna, þrátt fyrir mikla aukningu beinna íslenskra fjárfestinga erlendis á síðustu misserum.

 

            Eitthundrað og sex japönsk fyrirtæki skráðu sig á þingið, sem var fullsetið. Fimm erindi voru flutt; Benedikt Höskuldsson sendifulltrúi kynnti viðskiptaumhverfið á Íslandi, Kristján Þ. Davíðsson, frá Glitni, kynnti kosti og styrkleika íslensks sjávarútvegs, hnattvæðingu greinarinnar og möguleika á enn frekara samstarfi innan hennar s.s. milli íslenskra og japanskra fyrirtækja. Þá kynnti Eyþór Eyjólfsson, einnig frá Glitni, þjónustu bankans við alþjóðlegan sjávarútveg.

 

            Isao Nakasu, forseti Samtaka japanskra fyrirtækja í sjávarútvegi, flutti erindi um stöðu japansks sjávarútvegs og stefnu í tengslum við núverandi hnattvæðingu greinarinnar. Það kom fram að japönsk fyrirtæki ráðgera að stefna í auknum mæli á erlenda markaði með vörur framleiddar í Asíu, og þá ekki síst til Evrópu og Norður Ameríku. Það var mat Nakasu að japönsk fyrirtæki þyrftu í auknum mæli að eiga samstarf við erlend fyrirtæki til þess að hrinda áformum sínum í framkvæmd. Sagði hann að íslensk fyrirtæki gætu komið sterklega þar til greina.

 

            Að lokum flutti Yuzuru Nakabe, varaframkvæmdastjóri Maruha Nichiro Holdings Inc., erindi þar sem kom fram að fyrirtækið ráðgerir að hasla sér í vaxandi mæli völl á mörkuðum utan Japans. Hann nefndi Kína, Norður-Ameríku og Evrópu sérstaklega í þessu samhengi og skýrði frá því að fyrirtækið hefði átt viðskipti við Ísland áratugum saman, með mjög góðum árangri.

 

Video Gallery

View more videos