Opnun íslenska skálans á Feneyjartvíæringnum

Íslenski skálinn á Feneyjartvíæringnum var formlega opnaður um liðna helgi í Palazzo Zenobio af Dorritt Moussaieff, forsetafrú,  að viðstöddum á þriðja þúsund gesta. Feneyjartvíæringurinn, sem er stærsta sýning samtímamyndlistar í heiminum og fer fram annað hvort ár, ber nú yfirskriftina "ILLUMInations". Spænsk - íslenska listatvíeykið Libia Castro og Ólafur Ólafsson eru fulltrúar Íslands á tvíæringnum að þessu sinni með sýninguna “Under deconstruction”.   Við opnun íslenska skálans bauð Dorothée Kirch, framkvæmdastjóri Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar og framkvæmdastjóri skálans,  gesti velkomna og Auður Edda Jökulsdóttir, menningarfulltrúi utanríkisráðuneytisins, ávarpaði gesti fyrir hönd stjórnvalda.

Sýning Libiu og Ólafs samanstendur af þremur verkum sem unnin eru í ólíka miðla á borð við myndbönd, gjörninga, hljóðskúlptúra og málverk. Hún hefur vakið umtalsverða athygli alþjóðlegra tímarita og fjölmiðla á borð við Frieze, Monopol, Daily Beast, ARD, Welt, Süddeutsche Zeitung og Tagesspiegel.

Fyrsta verkið "Landið þitt er ekki til" birtist í ólíkum miðlum; gjörningi sem framinn var við opnunina þar sem Ásgerður Júníusdóttir, messósópransöngkona, sigldi um síkin í Feneyjum í gondóla og söng „Þetta er tilkynning frá Libiu og Ólafi: Landið þitt er ekki til“ á ýmsum tungumálum við tónlist Karólínu Eiríksdóttur. Önnur útgáfa er videótónverk af gondólagjörningnum sem sýnt er í íslenska skálanum. Þriðja útgáfan er “Gerðu það sjálfur” málverk og ljósmynd þar sem sendiherra Íslands í Berlín málar eftir númerum Your country doesn't exist en sleppir "n't" þannig að úr verður Your country does exist. Fjórða útgáfa er neonskúlptúr Il tuo paese non esiste sem er ítölsk útgáfa verksins sem hangir á framhlið skálans.

Annað verkið er videótónverkið "Stjórnarskrá Íslands" eða Constitution of the Republic of Iceland í upptöku Ríkisútvarpsins sl. vor fyrir listasafnið Hafnarborg. Listatvíeykið fékk Karólínu Eiríksdóttur, tónskáld, til að semja verk fyrir sópran- og baritónrödd, píanó, kontrabassa og blandaðan kammerkór og var það frumflutt á Íslandi í mars 2008.

Þriðja verkið er "Exorcising Ancient Ghosts" er hljóðskúlptúr á tveimur tungumálum sem byggir á rannsókn Libiu og Ólafs á réttindum kvenna og útlendinga í Grikklandi til forna þar sem borgurum var m.a. meinað að eiga náið samneyti við útlendinga.

Þátttaka Íslands í Feneyjum er skipulögð af Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar. Mennta og menningarmálaráðuneytið er helsti stuðningsaðili þátttökunnar  en að því koma einnig með veglegum hætti utanríkisráðuneytið, Íslandsstofa, Reykjavíkurborg og fjölmörg fyrirtæki og einstaklingar. Sýningin er opin til loka nóvember.

Höfundur ljósmynda er Lilja Gunnarsdóttir

Nánari upplýsingar má finna á Labiennale.org  og Icelandicartcenter.is

Video Gallery

View more videos