Íslenskur sýningarbás á JATA World Tourism Congress Travel Fair

Hér er um að ræða eina stærstu ferðakaupstefnu, sem haldin er í Asíu.

Kynningin var samvinnuverkefni ferðaskrifstofunnar VIKING hf., sem haldið hefur úti beinu flugi með japanska ferðamenn til Íslands haust hvert sl. 4 ár og sendiráðs Íslands í Tókýó. Tækifærið var einnig nýtt til að kynna íslenskan mat í básnum. Áttu gestir þess kost að bragða á íslensku lambakjöti og reyktum lax. Japanska fyrirtækið Simpoh Food kynnti lambakjötið, en það hefur nú flutt inn lamabakjöt um nokkurt skeið við vaxandi vinsældir.  Icelandic Japan, fyrirtæki Icelandic Group,  var með kynningu á reyktum laxi.  Loks tók Atlantic Airways þátt í kynningunni með ferðir til Færeyja.

 

Undanfarin ár hefur aðsókn að ferðasýningunni aukist jafnt og þétt og komu samtals 106.241 gestur á sýninguna í ár.  Íslenski sýningabásinn fékk fjölmarga gesti, bæði Japani og aðila frá öðrum löndum.

 

Fjöldi japanskra ferðamanna til Íslands hefur tvöfaldast á sl. 5 árum og stefnir í fjölgun í ár.  Það er e.t.v. mikilvægara að japanskir ferðamenn dvelja nú orðið lengur á Íslandi en áður og fjölgaði t.d. gistinóttum Japana um 30% á milli áranna 2004 og 2005, sem er heljar mikið stökk samanborið við önnur Norðurlönd.

 

Að sögn sendiherra, Þórðar Ægis Óskarssonar, hefur sendiráðið lagt verulega áherslu á landkynningu að undanförnu.  Á annan tug landkynninga hafa verið haldnar í sendiráðinu, sem af er árinu, bæði að frumkvæði sendiráðsins og í samvinnu við ferðaskrifstofur sem selja ferðir til Íslands.  Má ætla að á fimmta hundruð manns hafi komið í sendiráðið til að sækja Íslandskynningar.  Starfsfólk sendiráðsins hefur einnig við ýmis tækifæri farið í heimsóknir til félagasamtaka og skóla til að kynna land og þjóð.  Það sem helst háir landkynningunni er skortur á efni um Ísland á japönsku, því lítt þýðir að bjóða Japönum efni á ensku þar sem kunnátta í því tungumáli er takmörkuð.  Starfsfólk sendiráðsins hefur stundum brugðið á það ráð að semja og útbúa eigið efni til kynningar.  Ný og betri heimasíða sendiráðsins verður opnuð á næstu dögum, en japanskir starfsmenn hafa unnið þrekvirki við að þýða efni um Ísland og íslenskt þjóðlíf fyrir þessa mikilvægu upplýsingaveitu.

 

Þórður Ægir segir að mikil tækifæri séu á því að auka áhuga Japana á að heimsækja Ísland.  Landið veki mjög einlægan áhuga hjá Japönum, því margt er líkt með löndunum þrátt fyrir ólíkan menningarheim.  Íslendingar hafi í þessu ákveðið forskot, sem nýta mætti mikið betur.  Baðmenning Japana er t.d. heimsfræg og þeim þykir afar forvitnilegt að heyra um nýtingu Íslendinga á jarðhita til baða.  Þegar þetta er sett saman við jarðskjálfta, eldgos, fiskveiðar, mikið landrými og hreina náttúru þá er komin töfraformúla, sem virkar vel til að kveikja áhuga á Íslandi meðal almennings hér í Japan.  Video Gallery

View more videos