Flutningur NHK-sinfóníuhljómsveitarinnar á Sumartónum eftir Þorkel Sigurbjörnsson

Í tilefni af 50 ára stjórnmálasambandsafmæli Íslands og Japans í desember sl. mun Sinfóníuhljómsveit japanska ríkisútvarpsins (NHK) flytja verkið Sumartónar, eftir tónskáldið Þorkel Sigurbjörnsson, 21. og 22. febrúar nk. Nánari upplýsingar um tónleikana og sölu miða má finna á heimasíðu NHK.  Tónleikarnir eru númer 1591 á síðunni.

Þorkell Sigurbjörnsson fæddist árið 1938.  Hann stundaði nám í píanóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík en þegar hann hélt til Bandaríkjanna til framhaldsnáms urðu tónsmíðar hans aðalnámsgrein.  Þorkell stundaði nám við Hamline-háskólann í Minnesota og við Illinois-háskóla í Champaign-Urbana.  Þar að auki sótti hann tónsmíðanámskeið í Darmstadt í Þýskalandi og Nice í Frakklandi.  Ásamt þessu hefur Þorkell stundað píanóleik, starfað sem tónlistargagnrýnandi og dagskrár-gerðarmaður við Ríkisútvarpið.  Þorkell er afkastamikið tónskáld og á verkaskrá hans er að finna hljómsveitarverk, konserta, kammertónlist, óperur, sönglög og kórverk.

Sumartónar eru tónlist hinna glöðu endurminninga um róluvöllinn við Freyjugötu í Reykjavík sem á sumrin vaknaði til annars og meira lífs en um veturinn og var þar alltaf gnótt leiktækja, rólur, vegasölt og sandkassar, rennibraut, klifurgrind og fleira.   

 Video Gallery

View more videos