Viðskiptaþing í Nice

Viðskiptasamtökin Club Sophia Nordic Link (CSNL), sem hefur aðsetur í Sophia Antipolis í Cannes, stærsta tæknigarði Evrópu, stóðu fyrir viðskiptaþingi dagana 26. og 27 apríl sl., sem hafði að markmiði að kanna möguleika á að styrkja viðskipta- og menningartengsl Suður-Frakklands og Norðurlanda. Annar af aðalhvatamönnum þingsins er Guðrún Bjarnadóttir, sem situr í stjórn CSNL, og bar hún hita og þunga af undirbúningi viðburðarins. Útflutningsráð Sophia Antipolis, TCA, Conseil Général, Viðskipta- og iðnaðarráð Nice og Viðskiptaráð Monaco komu að þinginu. Um 90 manns voru skráðir á þingið. Meðal fyrirtækja, sem sóttu þingið, var Landsbanki Íslands, sem er að undirbúa stofnun banka í Nice. Tveir fulltrúar Landsbankans, Thomas Nielsen, sem vinnur að stofnun bankans í Nice og fulltrúi frá Landsbanki-Kepler í París, Philippe Smidt, fluttu erindi á þinginu.

Erindi þingsins voru tengd orkumálum, sérhæfðri fjármögnun banka og sérstökum aðstæðum sem fjárfestar þurfa að hafa þekkingu á í Frakklandi. Guðrún Bjarnadóttir flutti erindi á franska viðskiptaþinginu í Reykjavík þann 12 apríl sl. um Suður-Frakkland og Sophia Antipolis og voru þessi tveir kynningarviðburðir því tengdir frönsku menningarviðburðunum á Pourquoi Pas? í Reykjavík.

Í tengslum við þingið var haldin myndlistarsýning listamanna frá Norðurlöndum, Frakklandi og Monaco. Katrín Friðriks listmálari var fulltrúi Íslands. Af sendiherrum Norðurlanda, sem var boðið að vera viðstaddir viðburðina, var sendiherra Íslands einn viðstaddur og opnaði hann formlega þingið og sýninguna.

Sophia Antipolis tæknigarðurinn er í heild um 2300 ha svæði þar sem fyrirtæki og rannsóknastofnanir hafa komið sér fyrir. Þar sækja starf og nám um 30.000 manns daglega. Aðalhvatamaður að stofnun tæknigarðsins í upphafi 8. áratugar síðustu aldar var öldungadeildarþingmaðurinn Lafitte, sem er enn einn af aðalstuðningsmönnum tæknigarðsins. Hann var viðstaddur viðburðinn.Video Gallery

View more videos