Viðamikil norræn bókmenntahátíð í Nantes

Þann 9. - 11. nóvember 2007 var haldin í Nantes viðamikil kynning á bókmenntum Íslendinga, Dana og Norðmanna, fjallað um bókaútgáfu í löndunum þremur og kynntir listviðburðir. Kynningin var á vegum samtakanna "Impressions d'Europe". Sendiherra var viðstaddur opnun hátíðarinnar og flutti ávarp f.h. landanna þriggja.

Ávörp fluttu einnig forsseti "Impression d'Europe" Mme Frétin, menningarfulltrúi Nantes-borgar, M. Cestor og fyrsti varaforseti héraðsstjórnar Pays de la Loire, Mme Hérin.

Fulltrúar Íslands á kynningunni voru rithöfundarnir Einar Már Guðmundsson og Árni Þórarinsson, skáldkonan Kristín Ómarsdóttir og Guðrún Vilmundardóttir bókaútgefandi. Listamennirnir lásu úr verkum sínum og ræddu um þau. Haldið var málþing um bókaútgáfu. Sérstakt málþing var haldið undir heitinu "L'imaginaire et le légendaire à travers les Sagas" (Skáldskapur og þjóðsaga í Íslendingasögunum). Sýnd var kvikmyndin "Hafið" eftir Baltasar Kormák.

Skipuleggjandi Impression d'Europe var Ives Douet, og gekkst sendiráð Íslands fyrir því að hann hlyti styrk utanríkisráðuneytis og menntamálaráðuneytis til verksins. Viðburðurinn var fjölsóttur og vel heppnaður í alla staði.
Video Gallery

View more videos