Vel heppnuð ráðstefna um Íslendingasögur og fornleifafræði

Þann 1. desember 2007 hélt sendiráð Íslands í Frakklandi ráðstefnu undir yfirskriftinni "Skáldsagnahöfundar eða sagnfræðingar, íslendingasögur og fornleifafræði" ("Romanciers ou historiens?, les sagas islandaises face à l'histoire et à l'archéologie moderne"). Fjórir fyrirlesarar héldu erindi: Prófessor François-Xavier Dillmann, sem er sérfróður í norrænum miðaldafræðum, hélt erindi um elstu lagatexta íslenska og heimildagildi þeirra; norski prófessorinn Sverre Bagge, sem er sérhæfður í miðaldasagnfræði, fjallaði um sagnfræðiskilning Snorra Sturlusonar; prófessor Torfi Tulinius, sérfræðingur í miðaldabókmenntum, fjallaði um sagnfræðilegt og listrænt og bókmenntalegt gildi Íslendingasagna og Jesse Byock, prófessor í norrænum fræðum og í fornleifafræði, skýrði frá þverfaglegum niðurstöðum í fornleifauppgreftri að Mosfelli. Sendiherra ávarpaði gesti í upphafi ráðstefnunnar og stýrði umræðum og fyrirspurnum í lok erinda.

Yfir 200 manns sóttu fyrirlesturinn

Ráðstefnuna, sem haldin var í fyrirlestrarsal Franska landafræðifélagsins, sóttu á þriðja hundrað gesta og var þar áberandi fjöldi háskólaprófessora og stúdenta. Nýútkomin frönsk þýðing á bók Jesse Byock um íslenskar miðaldir, sem hefur fengið mikla og mjög jákvæða umfjöllun í frönskum fjölmiðlum, lá frammi til kynningar og áritaði höfundur bækurnar. Að ráðstefnu lokinni bauð sendiherra til móttöku.Video Gallery

View more videos