Tónlistarhátíðin í Esparron tókst vel

Tónlistarhátíðin „Provence-Islande“ var haldin í bænum Esparron de Verdon í Efra-Provence dagana 30. júní til 10. júlí. Ármann Örn Ármannsson er upphafsmaður hátíðarinnar og skipuleggjandi hennar. Þetta var í fimmta sinn sem hátíðin er haldin, en það var árið 2000 að Ármann Örn stóð í fyrsta sinn fyrir henni. Hefur hann fengið í heimsókn jafnt íslenska sem erlenda listamenn, og sannarlega blásið lífi í menningarlíf staðarins.

Frá Esparron de Verdon

Í ár styrkti menntamálaráðuneytið, Íslandsbanki, Kópavogsbær og Össur Kristinsson hátíðina, auk þess sem bæjarstjórnin í Esparron og sýslusjóður veittu verkefninu styrki. Í útsendingu héraðsútvarpsins, Radio Provence, var hátíðin kynnt og þar sátu m.a. fyrir svörum sendiherra Íslands, Tómas Ingi Olrich og Jaap Schröder fiðluleikari.

Skálholtskvartettinn lék á fyrstu tónleikum hátíðarinnar þann 30. júní, en kvartettinn skipa Jaap Schröder (fiðla), Rut Ingólfsdóttir (fiðla), Svava Bernharðsdóttir (víóla) og Sigurður Halldórsson (selló). Léku þau verk eftir Boccherini, Joseph og Michael Haydn. Fóru tónleikarnir fram í kirkju bæjarins, og var hún þéttskipuð hlustendum, um 80 manns.

Frá Esparron de VerdonPíanóleikarinn Vovka Ashkenazy hélt einleikstónleika 1. júlí og lék þar verk eftir Chopin, Beethoven, Ravel og Rachmaninoff. Tónleikar hans voru ennfremur mjög vel sóttir. Ashkenazy lék síðan undir á tónleikum Ólafs Kjartans Sigurðssonar barítónsöngvara þann 3. júlí, en þar fluttu þeir meðal annars verk eftir Mozart, Sigvalda Kaldalóns, Karl O. Runólfsson, Jóhann Tryggvason, Rachmaninoff, Ravel og Jón Þórarinsson.

Franski píanóleikarinn Pierre Morabia hélt erindi um tónlist Franz Liszt og lék ennfremur verk hans mánudagskvöldið 3. júlí. Morabia er píanókennari við tónlistarháskólann í Marseille og hefur haldið einleikstónleika víða um Evrópu.

Sópransöngkonan Alina Dubik hélt tónleika við undirleik Jónasar Ingimundarsonar þann 6. júlí. Söng hún meðal annars verk eftir Bjarna Böðvarsson, Rachmaninov, Chopin, Saint-Saëns og Liszt.

Áshildur Haraldsdóttir flautuleikari lék ásamt Pierre Morabia á lokatónleikum hátíðarinnar sunnudaginn 10. júlí. Þar léku þau meðal annars verk eftir Bach, Poulenc, Fauré, Debussy og Bourne.

Video Gallery

View more videos