Tónleikar íslenskra listamanna - Concert à Rosheim, Alsace

Sendiherrahjónin voru viðstödd frumflutning tónaljóðsins "Bænar" eftir Gunnar Þórðarson, tónlistarmann þann 3. júlí 2008. Tónlistarviðburðurinn fór fram í kirkju heilagra Péturs og Páls (Eglise Saints Pierre-et Paul), í bænum Rosheim í Alsass. Verkið var flutt af fimm söngvurum og 19 tónlistarmönnum kammerhljómsveitarinnar "Jón Leifs Camerata", undir stjórn Hákonar Leifssonar. Sigrún Hjálmtýsdóttir söng einsöng og með henni kvartett einsöngvara, sem skipuðu þau Hlín Pétursdóttir, sópran, Jóhanna Halldórsdóttir, alt, Gissur Páll Pétursson, tenór og Jóhann Smári Sævarsson, bassi. Franski píanóleikarinn Yolande Uytter lék með íslensku listamönnunum.

Fyrir tónleika fluttu bæjarstjórinn í Rosheim, erkibiskupinn í Strassborg og sendiherra ávörp.

Kirkjan var þétt skipuð og verkinu afar vel tekið. Bæjarstjórn Rosheim hélt tónslitarfólkinu og stuðningsmönnum móttöku eftir tónleikana.

Í verki sínu fléttar Gunnar Þórðarson saman áhrifum frá ljóði eftir Albert Strikler og frá höggmyndum sem Gérard Brand hefur gert við ljóðið og eru sýnd í kirkjunni. Trílógian, sem þannig hefur orðið til milli þriggja listgreina sækir innblástur sinn í bænina annars vegar og til Rosheim kirkjunnar hins vegar, en kirkjan er forn og stílhrein, rómönsk kirkja frá 12. öld.

Helstu styrktaraðilar í Alsace voru erkibiskupsembættið í Strassborg og Stjórnarráð Lág-Rínarsýslu ásamt fyritækjunum Draber-Neff, Icade, Vauban, Sparisjóði Alsass og Dromson Immobilier, sem er fyrirtæki íslenska ræðismannsins í Strassborg. Íslenskir styrktaraðilar voru forsætisráðuneyti og utanríkisráðuneyti, Sparisjóðurinn í Keflavík og Reykjavík-Loftbrú.

Ræðismaður Íslands í Strassborg, Patrick Dromson kom mjög að undirbúningi þessa tónlistarviðburðar og naut til þess stuðnings Elisabeth Rechenmann og séra Charles Singer, sem eru skipuleggjendur listviðburðanna "Vegur helgitónlistar í Alsass" (Chemin d'Art Sacré en Alsace), en íslenska verkið var liður í þeirri hátíð.

Sendiherra notaði tækifærið og heimsótti ásamt ræðismanni sýslumann Lág-Rínarsýslu (Département du Bas-Rhin), bæjarstjórann í Strassborg, bæjarstjórann í Rosheim og Stjórnarráð Lág-Rínarsýslu (Conseil Général). Hann skoðaði einnig Húmanista-bóka- og handritasafnið í Séléstat, en það er eitt merkasta bóka- og handritasafn í Frakklandi.

Copie de l’article de presse paru dans les Dernières Nouvelles d’Alsace du 6 juillet 2008Video Gallery

View more videos