Tónleikar Eddu Erlendsdóttur í París þann 2. október

Tónleikar Eddu Erlendsdóttur píanóleikara verða haldnir í Hôtel National des Invalides í París föstudaginn 2. október nk. kl. 20. Edda mun leika verk eftir Haydn, Bach og Schubert.

Verndari tónleikanna er Tómas Ingi Olrich, sendiherra í París.

Aðgangseyrir: 8,5 og 6,5 evrur .

Miðapöntun í síma (+33) 01 44 42 35 07  alla virka daga frá kl. 10-12 og frá 14-16.

Hôtel National des Invalides,
129 rue de Grenelle,
75007 Paris 

Metro: Varenne eða Latour Maubourg.

 

Edda  Erlendsdóttir er fædd í Reykjavík. Hún stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík m.a. hjá Árna Kristjánssyni. Hún lauk þaðan einleikaraprófi 1973 en hafði  ári fyrr lokið píanókennaraprófi. Hún stundaði síðan nám hjá Pierre Sancan við Tónlistarháskólann í París og lauk þaðan prófi 1978. Hún naut einnig leiðsagnar Marie-Francoise Bucquet. Hún var árið 1990 valin fulltrúi Menuhin stofnunarinnar.

Edda hefur haldið fjölmarga tónleika og tekið þátt í tónlistarhátíðum m.a. á Íslandi, Frakklandi,Skandinavíu, Englandi, Belgíu, Þýskalandi, Sviss, Ítalíu, Rússlandi, Lettlandi, Úkraínu  Bandaríkjunum og nýverið í Kína.

Hún tekur reglulega þátt í tónlistarlífinu á Íslandi m.a. hjá Kammermúsikklúbbnum,  á Tíbrá tónleikum í Salnum og á Listahátíð í Reykjavík. Hún tók þátt í frumflutningi á Íslandi á Brúðkaupinu eftir Stravinsky á Listahátíð árið 2002. Hún hefur oft komið fram sem einleikari  með Sinfóníuhljómsveit Íslands og píanókonsert eftir Haydn undir stjórn Kurts Kopecky  í nóvember 2007.

Efnisskrár hennar spanna fyrstu verkin skrifuð fyrir fortepíanó (C.P.E.Bach) allt til samtímatónlistar  ( Pierre Boulez) og hafa vakið athygli fyrir frumleika. Hún hefur verið ötull flytjandi íslenskrar píanótónlistar erlendis og hafa íslensk tónskáld samið fyrir hana.

Edda hefur verið virkur þátttakandi í kammertónlist. Hún  átti frumkvæði að árlegum kammertónleikum á Kirkjubæjarklaustri og var listrænn stjórnandi í 15 ár.  Hún er einnig meðlimur í kammerhópnum Le Grand Tango sem undir stjórn Oliviers Manoury bandoneonleikara hefur sérhæft sig í flutningi á argentískum tangó.

Hún hefur átt farsælt samstarf með mörgum af fremstu tónlistarmönnum landsins og ber þar helst að nefna Bryndísi Höllu Gylfadóttur sellóleikara en diskur þeirra með verkum eftir Kodaly, Martinu, Janacek og Enescu hlaut árið 2004 íslensku tónlistarverðlaunin.

Edda hefur gert fjölda upptökur bæði fyrir hljóðvarp og sjónvarp,  m.a. fyrir þáttinn

"Tíu fingur" sem sýndur var í íslenska ríkissjónvarpinu í janúar 2007 og vakti mikla athygli.

Hún hefur gefið út diska með píanóverkum eftir C.P.E.Bach,  Alban Berg,  Grieg,  Haydn, Schubert, Schönberg og Tchaikovksky  sem hlotið hafa viðurkenningu og lof gagnrýnenda. Hún hefur nýverið lokið upptökum á nýjum geisladiski með píanókonsertum eftir Haydn ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Kurt Kopecky sem kemur út á þessu ári.

Edda Erlendsdóttir píanóleikari er búsett og starfandi í París. Hún er prófessor í píanóleik við Tónlistarskólann í Versölum.Video Gallery

View more videos