Ræðismannahátíð í Lyon 3.-5. júní 2005

Dagana 3. og 4. júní voru sendiherrahjónin viðstödd ræðismannahátíð í Lyon sem borgarstjórn skipuleggur árlega og var nú haldin í fjórða skipti. Ræðismönnum í borginni gefst þar tækifæri til að kynna þau lönd, sem þeir eru fulltrúar fyrir. Michel Valette, ræðismaður Íslands í Lyon,  stóð fyrir kynningu  á Íslandi með aðstoð Önnu Kristínar Ásbjörnsdóttur hjá Ferðaskrifstofunni 66° Nord og sendiráðs Íslands í París.

Á bás Íslands var íslenskt atvinnulíf kynnt með veggspjöldum auk þess sem dreift var margvíslegu upplýsingaefni, aðallega um ferðaþjónustu á Íslandi. Hátíðin var fjölsótt og vakti bás Íslands athygli. Var það bæði vegna smekklegra uppsetningar kynningarefnis, en ekki síður vakti áhuga barna og unglinga líkan af víkingaskipi, sem róið var kappsamlega af fjarstýrðum víkingum.

Borgarstjóri Lyon heimsótti sýningarsvæðið og skoðaði íslenska básinn, þar sem honum var boðið upp á íslenskt vatn. Sendiherra átti viðræður við borgarstjórann um upplýsingagildi hátíða af þessu tagi svo og um þátttöku Íslendinga í Bocuse d’Or matreiðslukeppninni í Lyon, en þar hefur þeim vegnað mjög vel.

Lyon er ein af þremur stærstu borgum Frakklands og er talin höfuðborg matargerðarlistar í sjálfu sælkeralandinu. Þar er ferðaþjónusta mikilvæg atvinnugrein, enda er Lyon með elstu borgum Frakklands. Gamli borgarhlutinn, sem á rætur að rekja til Rómveldis, er á heimsminjaskrá, og margar fornar og veglegar byggingar setja svip sinn á borgarstæðið, sem er svipmikið og á mörkum tveggja fljóta, Rón og Són. Fyrir utan byggingarlist setur öflugt vísindastarf svip sinn á borgarlífið.Video Gallery

View more videos