Ráðstefna um Ísland í Paimpol

Þann 21. október 2006 var haldin ráðstefna um Ísland samtímans í bænum Paimpol á Bretagneskaga, en í þeim bæ hefur verið lögð einstök rækt tengsl við Frakka og Íslendinga og við minninguna um fiskveiðar Frakka við Ísland. Að ráðstefnunni stóðu bæjarstjórn Paimpol, bókasafn bæjarins, og Grunda.pol, vinabæjarsamtök Paimpol og Grundarfjarðar.

Á ráðstefnunni flutti sendiherra Íslands í Frakklandi, Tómas Ingi Olrich, fyrirlestur um Ísland, landið og þjóðina, náttúruna, menninguna, efnahagsmálin o.fl. Régis Boyer, fv. prófessor í norrænum fræðum við Sorbonne-háskóla fjallaði um íslenskar bókmenntir frá 1950 til dagsins í dag. Á eftir voru fyrirspurnir og umræður. Bæjarstjóri Paimpol flutti ávarp og kynnti fyrirlesara, en stjórnandi ráðstefnunnar var Daniel Robin framkvæmdastjóri safnsins. Fullt var út úr dyrum og munu á annað hundrað manns hafa sótt ráðstefnuna.

Í bókasafni Paimpol stendur nú yfir kynning á Íslandi og íslenskum bókum, sem þýddar hafa verið á frönsku. Einnig stendur bókasafnið fyrir sýningum á nokkrum kvikmyndum, bæði íslenskum myndum og öðrum sem tengjast Íslandi.

Að morgni sama dags var gata í Paimpol, sem helguð er frönskum sjómönnum sem stunduðu veiðar við Ísland frá miðri 19. öld, tileinkuð Grundarfirði við hátíðlega athöfn, sem þjóðbúningar og sekkjapípuleikur settu svip á.

Frá Paimpol

Video Gallery

View more videos