Parísarbúar ánægðir með íslenska rokkið

© Guillemette MAir d’Islande 2012 lauk með glæsibrag í París á sunnudagskvöldið. Mikil stemming var á helstu tónlistarviðburðum hátíðarinnar, Iceland Airwaves tónleikum sem haldnir voru fyrir fullu húsi á Point Ephémère og stórskemmtilegu rokkkvöldi þar sem hljómsveitir á vegum Kimi Records hristu vel upp í Parísarbúum.

Að sögn Ara Allanssonar, stofnanda og hátíðarstjóra Air d’Islande, voru tónleikarnir frábær endahnútur á vel heppnaða dagskrá hátíðarinnar í ár.

- Þetta var algjör snilld. Það var gjörsamlega uppselt á Iceland Airwaves tónleikana með Snorra Helgasyni, Kríu Brekkan og For a Minor Reflection á laugardagskvöldið og svo héldum við hörkurokktónleika með Lazyblood, Reykjavík! og kimono. Fólk var verulega ánægt að fá tækifæri til þess að sjá og heyra íslenskt eðalrokk með þessu frábæra tónlistarfólki.

Eins og á fyrri hátíðum voru það tónlistarviðburðirnir sem vöktu mesta athygli hátíðargesta en kvikmynda- og listadagskráin stóð einnig fyrir sínu.

- Við leggjum mikla áherslu á að sinna kvikmyndunum og samtímalistinni vel til þess að gefa Parísarbúum gott þversnið af íslensku listalífi. Frakkarnir sýna íslenskri menningu mikinn og vaxandi áhuga. Þeim finnst mjög athyglisvert hversu marga frumlega og spennandi listamenn við eigum og hversu mikil gróska er í menningarlífi Íslendinga, segir Ari Allansson.

Þrátt fyrir að Air d’Islande 2012 sé nú formlega lokið gefst gestum kostur á að skoða málverkasýningu Rúríar hjá listfræðingnum Laufeyju Helgadóttur fram til 21. apríl næstkomandi.

Sjá nánar á www.airdislande.com og www.facebook.com/airdislande

Nánari upplýsingar

Páll Tómas Finnsson
Kynningarfulltrúi Air d’Islande á Íslandi
palltomas@finnsson.dk
+45 2925 4945

Ari Allansson
Hátíðarstjóri Air d’Islande
ari@airdislande.com
+33 (0)6 3141 2578

Video Gallery

View more videos