Opinber heimsókn forseta Íslands til Frakklands

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson hóf í dag, mánudaginn 25. febrúar, heimsókn til Parísar í boði franskra stjórnvalda. Hann mun á morgun, þriðjudaginn 26. febrúar, eiga fund í Elysée höll með François Hollande forseta Frakklands þar sem m.a. verður rætt um glímuna við fjármálakreppuna, þróun Norðurslóða og nýtingu hreinnar orku.

Forseti Íslands mun einnig heimsækja franska þingið, Assemblée nationale, meðan á dvöl hans í París stendur og eiga fund með Íslandsdeild franskra þingmanna sem Lionel Tardy veitir forstöðu. Þá mun forseti jafnframt eiga fundi með frú Laurence Dumont, varaforseta neðri deildar þingsins, og Jean-Pierre Bel, forseta efri deildar þingsins, Sénat.

Þá mun forseti flytja fyrirlestur um Norðurslóðir og loftslagsbreytingar við Université Pierre et Marie Curie háskólann í París og svara fyrirspurnum í kjölfarið. Við lok málþingsins verður forseti viðstaddur opnun sýningar á ljósmyndum Ragnars Axelssonar (RAX) sem ber heitið Veiðimenn norðursins (Last Days of the Arctic).

Forseti tekur einnig þátt í viðskiptaþingi sem Fransk-íslenska verslunarráðið efnir til fimmtudaginn 28. febrúar í höfuðstöðvum Franska verslunarráðsins í París. Á þinginu munu Már Guðmundsson seðlabankastjóri og fulltrúar nokkurra íslenskra fyrirtækja einnig flytja erindi.

Þá heimsækir forseti höfuðstöðvar OECD, Efnahags- og framfarastofnunarinnar, í boði Angel Gurría, framkvæmdastjóra hennar. Þar flytur forseti ræðu um reynslu Íslendinga af þróun hagkerfis hreinnar orku og svarar fyrirspurnum um lærdómana af glímu Íslendinga við efnahagskreppuna. Málþingið í höfuðstöðvum OECD sitja sendiherrar allra aðildarríkja stofnunarinnar.

Forseti mun einnig heimsækja höfuðstöðvar UNESCO, Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, og eiga fund með Irina Bokova, framkvæmdastjóra stofnunarinnar.

Þá mun forseti eiga fundi með Jean-Yves de Chaisemartin, bæjarstjóra Paimpol, vinabæjar Grundarfjarðar, og Gérard Ringot, bæjarstjóra Gravelines, í ljósi sögulegra tengsla bæjarins við Fáskrúðsfjörð. Þá verður einnig fundur með ræðismönnum Íslands í Frakklandi.

Heimsókn forseta Íslands til Parísar lýkur að kvöldi fimmtudagsins 28. febrúar.

www.forseti.is

 

Video Gallery

View more videos