Menningarvika í París 22.-28. mars

Menningarviðburðir í sendiherrabústaðnum

Tveir menningarviðburðir voru haldnir í sendiherrabústaðnum í vikunni 22. mars - 28. mars. Þann 22. mars buðu sendiherrahjónin, Þórir Ibsen og Dominique Ambroise Ibsen, til kvöldverðar í sendiherrabústaðnum, til heiðurs Erró. Kvöldverðurinn var haldinn í tilefni af sýningu á klippimyndalist hans í Centre Pompidou sem stendur yfir frá 15. febrúar til 24. maí 2010, undir heitinu “Erró, 50 ans de collages”. Þá var tækifærið nýtt til að kynna íslenska nútímalist fyrir boðsgestum sem voru, meðal annarra, leiðandi safnstjórar og sýningarstjórar í París.

Í lok vikunnar þann 26. mars, var völdu fjölmiðlafólki úr menningarheiminum, ásamt safna- og sýningarstjórum, boðið til menningarkynningar í sendiherrabústaðnum. Ari Allansson kynnti þar menningarhátíðina Air d’Islande og Halldór Björn Runólfsson kynnti íslenska samtímalist fyrir gestum, þar á meðal þau verk sem eru til sýnis á veggjum sendiherrabústaðarins. Fulltrúar Íslands á Feneyjartvíæringnum, þau Ólafur Ólafsson og Libia Castró, tóku einnig þátt í kynningunni og var kvikmynd þeirra “Lobbyists” sýnd í bústaðnum.

Viðburðirnir voru partur af verkefni utanríkisráðuneytisins um samtímalist í sendiráðum og voru undirbúnir í samstarfi við Listasafn Íslands og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar.

Halldor_Bjorn_Runolfsson_forstjori_Listasafns_Islands_kynnir_islenska_samtimalist_i_sendiherrabustadnum_i_Paris

Air d’Islande, kvikmynda- og menningnarhátíð

Helgina 26.-28. mars var Air d’Islande hátíðin haldin í annað sinn í samstarfi við Ara Allansson, framkvæmdastjóra hátíðarinnar. Hátíðin samanstóð af viðburðum og sýningum tengdum íslenskri nútímalist, kvikmyndum og tónlist.

Listrænar heimildamyndir Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar, “Caregivers”, “Lobbyists” og “Avant Garde Citizens” voru til sýningar alla helgina í listasafninu Galerie Don’t Projects, en forstöðumaður Listasafns Íslands, Halldór Björn Runólfsson hélt þar einnig erindi um nútímalist.

Kvikmynd Valdísar Óskarsdóttur “Sveitabrúðkaup” eða “Mariage à l’Islandaise” var svo til sýningar á kvikmyndakvöldi hátíðarinnar í Latínuhverfinu en í kjölfarið af henni fylgdi verðlaunamynd Baltasars Kormáks, “Brúðguminn” eða “White Night Wedding”.

Hátíðinni lauk með tónlistarkvöldi á La Flèche d’or, þar sem fram komu Hildur Guðnadóttir sellóleikari og Valgeir Sigurðsson tónlistarmaður.

Hátíðin tókst vel í alla staði og er stefnt að því að Air d'Islande verði árlegur menningarviðburður í París.Video Gallery

View more videos