Málþing um íslenska tungu

Þann 2. desember hélt sendiráð Íslands í París málþing um íslenska tungu, en hefð hefur skapast fyrir bókmenntalegum viðburðum í sendiherrabústað í tilefni fullveldisafmælis Íslands. Málþingið, sem bar yfirskriftina “Tungumál og þjóðarvitund: Nýmæli og hefðir”,  var haldið í fyrirlestrarsal Landafræðifélags Frakklands, þar sem það þótti of stórt í sniðum fyrir sendiherrabústaðinn. Rúmlega 250 manns sóttu þingið og var fyrirlestrarsalurinn fullskipaður. Meðal viðstaddra var talsverður hópur stúdenta, sem stunda íslenskunám í Sorbonne.

Ríflega 250 manns sóttu málþingiðTómas I. Olrich, sendiherra Íslands, setti málþingið, bauð gesti velkomna og kynnti ræðumenn, sem voru frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, er flutti  erindi sem nefndist “Tungumálið, hljóðfæri sálarinnar”,  Claude Hagège, prófessor í málvísindum við Collège de France, sem fjallaði um “Eintyngi og fjölbreytni heimsmála”,  Sigurður Pálsson, skáld, er flutti fyrirlestur sem nefndist “Að tengja öróf alda við ókomna daga” og  Pétur Gunnarsson, rithöfundur, en erindi hans var “Tungumálið sem tilverugrundvöllur".  Fundarstjóri var  dr. Sveinn Einarsson, fyrrverandi þjóðleikhússtjóri.  Var gerður góður rómur að máli frummælenda og augljóst af fundarsókn og viðbrögðum að Frakkar hafa mikinn áhuga á viðhorfi Íslendinga til tungunnar og þeirrar ræktar, sem Íslendingar leggja við móðurmálið. Prófessor Hagège taldi að málrækt Íslendinga væri öðrum þjóðum til eftirbreytni og engar forsendur væru til að óttast yfirburðarstöðu enskunnar.    

Að málþingi loknu var haldin kynning á bókinni  « Garðurinn – Jardin » eftir Sigurð Pálsson og franska myndlistarmanninn Bernard Alligand.  Í bókinni, sem gefin er út í aðeins 60 eintökum er að finna frumort ljóð Sigurðar við myndir Alligands og eru engar tvær bækur eins.

Bernard Alligand og Sigurður Pálsson árita bókina

Bókin verður sýnd í Þjóðarbókhlöðunni í vor og er það liður í frönsku menningarkynningunni Pourquoi pas? sem haldin verður á Íslandi frá 21. febrúar til 21. maí.

Að þessu loknu bauð sendiherra til móttöku.Video Gallery

View more videos