Málþing um íslensk orkumál í franska öldungardeildarþinginu föstudaginn 29. júní.

Sendiráðið í París, Fransk-íslenska viðskiptaráðið og franska öldungardeildarþingið stóðu fyrir ráðstefnu um íslensk orkumál í franska senatinu, föstudaginn 29. júní að viðstöddum 150 gestum frá frönskum fyrirtækjum, samtökum, stofnunum og háskólum sem starfa í orkugeiranum auk blaðamanna. Var ráðstefnan ákveðin í í framhaldi af heimsókn vinnuhóps öldungardeildarþingmanna sem kenndur er við Norður-Evrópu, til Íslands í fyrra. Formaður vinnuhóps Norður-Evrópu er öldungardeildarþingmaðurinn Alain Vasselle og ábyrgðarmaður fyrir Ísland er öldungardeildarþingmaðurinn Yves Pozzo di Borgo. Verndari málþingsins var Christian Poncelet, forseti öldungardeildarþingsins.

Tilgangur ráðstefnunnar var að kynna sérstöðu Íslands á sviði orkumála og freista þess að auka samvinnu á milli franskra og íslenskra fyrirtækja og rannsóknaraðila á alþjóðavísu. Gerður var samanburður á löndunum tveimur, sér í lagi á sviði vatnsafls- og jarðvarmavirkjana og bent var á möguleg samlegðaráhrif.

Framsögumenn voru Þorkell Helgason Orkumálastjóri, Þorleifur Finnsson framkvæmdastjóri hjá  Orkuveitu Reykjavíkur, Lárus Elíasson framkvæmdastjóri Enex, Auður Nanna Baldvinsdóttir frá Geysir Green Energy, Gunnlaugur Nielsen deildarstjóri hjá Landsvirkjun, Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans, Pascal Dupuis, aðstoðardeildarstjóri orkumála hjá franska iðnaðarráðuneytinu,  Claude Jeandron, aðstoðarframkvæmdastjóri sjálfbærrar þróunar og umhverfismála hjá EDF (Electricité de France) og Fabrice Boissier, framkvæmdastjóri jarðvarmadeildar BRGM (Bureau de recherches géologiques et minières).  Ofangreindir öldungardeildarþingmenn, sendiherra Íslands í Frakklandi, Tómas Ingi Olrich og sendiherra Frakka á Íslandi, Nicole Michelangeli, opnuðu þingið.  Emmanuel Jacques, formaður Fransk-íslenska viðskiptaráðsins dró saman erindin í lok umræðna.  Stjórnandi umræðna var André Merlin, fyrrum framkvæmdastjóri RTE (Réseau de Transmission d’Electricité de France) og núverandi formaður European Energy and Transport Forum.

Íslandsdeild vinnuhóps Norður-Evrópu birti 54 bls. skýrslu í lok júnímánaðar um íslensk efnahagsmál þar sem orkumálum er gefinn sérstakur gaumur.  Nefnist skýrslan “Islande : Développement économique et protection de l’environnement, une symbiose réussie” sem útleggst “Ísland: Árangursrík samleið efnahagsframfara og umhverfisverndar”.   Var skýrslan kynnt blaðamönnum og sjónvarpsstöðinni Public Senat í kaffihléi.  Hana er hægt að lesa eða panta á heimasíðu öldungardeildarþingsins.

Hægt er að lesa franska útgáfu fyrirlestra og umræðna á heimasíðu þingsins (www.senat.fr  - undir “International” og  “Colloque Economiques Internationaux”). 

Hljóðupptökur (MP3 Audio) af málþinginu er hægt nálgast hjá sendiráðinu. Þær eru til í enskri og í franskri útgáfu.

Landsbankinn styrkti viðburðinn og kann sendiráðið þeim bestu þakkir fyrir.
 

Video Gallery

View more videos