Málþing um Ísland í Paimpol 19. nóvember 2011

Sendiráðið átti samvinnu við Evrópusamtökin Iles-et-Vilaines í Bretagne og borgaryfirvöld í Paimpol um málþing um Ísland í Paimpol 19. nóvember sl.. Markmið málþingsins var að kynna Ísland með áherslu á orkuvinnslu, sjávarútveg og menningarmál. Málþingið hlaut heitið "Ísland og ESB: kynnumst betur". Allt að eitt hundrað manns sóttu málþingið sem stóð frá kl. 9.30-17.00.
 
Dagskrá málþingsins:
 
1. Endurreisn íslenskra efnahagsmála
Framsaga: Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra.
Kynning á stöðu efnahagsmála á Íslandi. Meðal annars voru kynntar aðgerðir stjórnavalda eftir fall bankanna, samstarfið við AGS og umsókn Íslands um aðild að ESB.
 
2. Hringborð um endurnýjanlega orkugjafa
Framsaga: Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra, Gilles Petitjean, yfirmaður Bretagnedeildar Umhverfis- og orkumálastofnunarinnar ADEME, Christophe Le Visage, sjálfstæður ráðgjafi í málefnum hafsins, Bruno Mansuy, forstjóri ERH2 Bretagne
 
Markmið hringborðsins var að kynna sérstöðu Íslands á sviði orkumála og ræða hugsanleg samstarfsverkefni Íslands og Bretagne á þessu sviði. Mikill áhugi er í Frakklandi og ekki síst í Bretagne á endurnýjanlegri orku. Stefna Íslands í orkumálum og tækniþróun henni tengd var kynnt og ennfremur var fjallað um vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir svo og vetnisverkefni á Íslandi. Frakkar voru einnig með kynningar varðandi þróunarverkefni á svæðinu, en Bretagne framleiðir aðeins um 7% af eigin orkuþörf og kom fram mjög brýn þörf á að finna nýjar lausnir í raforkuframleiðslu. Kynnt var stórt verkefni á svæðinu sem nú er á lokastígi um neðansjávartúrbínu til raforkuframleiðslu sem virkjar stöðugan hafstraum á svæðinu. Einnig voru kynntar hugmyndir heimamanna um vetnisframleiðslu.
 
3. Hringborð um sjálfbærar fiskveiðar
Framsaga: Steinar I. Matthíasson, fulltrúi sjávarútvegsráðuneytisins í Brussel, Alain Cadec, Evrópuþingmaður og varaformaður sjávarútvegsnefndar Evrópuþingsins, Yannick Hemeury, útgerðarmaður og formaður sjavarútvegssamtaka Paimpol.
 
Steinar Matthíasson gerði grein fyrir fyrirkomulagi á stjórn fiskveiða á Íslandi, þróun kerfisins síðustu áratugi og helstu þætti þess. Jafnframt dróg hann fram mikilvægi sjávarútvegs og ábyrgrar veiðistjórnunar í fortíð, nútíð og framtíð fyrir efnahag landsins.
 
Alan Cadec, varaformaður sjávarútvegsnefndar Evrópuþingsins, ræddi um umsókn Íslands að ESB. Cadec lagði áherslu á að finna þyrfti lausnir á sviði sjávarútvegsmála. Það yrði að vera ávinningur fyrir báða aðila, sem hann áleit mögulegt.
 
Yannick Hemeury, útgerðarmaður og formaður sjómannasamtaka í Paimpol sagði hins vegar að nauðsynlegt væri að breyta fiskveiðistjónunarkefi ESB. Hann sagði að hugmyndir um kvótakerfi fyrir úthafsveiðar gætu verið skynsamlegar. Hemeury sagði umræðuna afar pólítiska, en að nauðsynlegt væri að skoða hagsmuni greinarinnar í heild.
 
4. Menningarkynningar
Framsaga: Katrín Einarsdóttir, sendiráðunautur, Olöf Pétursdóttir, þýðandi, Marie-Madeleine Geffroy, formaður vinabæjarfélags Paimpol og Grundafjarðar, Françoise Lépinette og Marie-José Jourdan.
Eftir hádegi var fjölbreytt dagskrá með menningarkynningum þar sem fjallað var um bókmenntir, sögu, íslenskt samfélag ofl.
 

Video Gallery

View more videos