Lok setu Íslands í framkvæmdastjórn UNESCO

Við lok 33. aðalráðstefnu UNESCO, sem fram fór í París dagana 3.-21. október síðastliðinn, lauk fjögurra ára setu Íslands í framkvæmdastjórn stofnunarinnar. Sveinn Einarsson hefur verið fulltrúi Íslands í stjórninni þessi fjögur ár.

Sveinn Einarsson hefur komið að samningu og samþykkt fjölda mikilvægra mála á þessum fjórum árum, kynnt málstað Íslands innan UNESCO sem og starf UNESCO á Íslandi. Sem formaður íslensku UNESCO-nefndarinnar til fjölda ára er hann öllum hnútum kunnugur innan stofnunarinnar og hefur sömuleiðis getað miðlað af reynslu sinni og þekkingu á sviði lista og menningar.

Í tilefni af þessum tímamótum hélt sendiherra Íslands í París, Tómas Ingi Olrich, móttöku í bústað sendiherra þann 15. september síðastliðinn, en í þeirri viku hófst síðasti fundur framkvæmdastjórnar fyrir aðalráðstefnuna. Til móttökunnar var boðið fulltrúum fjölda landa í framkvæmdastjórninni sem og starfsmönnum UNESCO. Tómas Ingi Olrich sendiherra flutti ávarp þar sem hann þakkaði Sveini fyrir ötult og mikilvægt starf í þágu Íslands og UNESCO og einnig flutti Hans-Heinrich Wrede, þáverandi formaður framkvæmdastjórnarinnar, ávarp og þakkaði Sveini fyrir samstarfið. Sveinn þakkaði sömuleiðis samstarfsfólki sínu fyrir undanfarin fjögur ár og lýsti áhuga sínum á að leggja sitt af mörkum til að viðhalda þeim góðu tengslum sem skapast hefðu milli Íslands og UNESCO.

Um svipað leyti lætur Guðný Helgadóttir sendiráðunautur og ritari íslensku UNESCO-nefndarinnar af störfum í París, en hún hefur verið búsett í París undanfarin þrjú og hálft ár og sinnt málefnum UNESCO. Hefur hún í störfum sínum fylgst náið með framvindu mála innan stofnunarinnar og sinnt fundasetu og samskiptum milli ráðuneyta á Íslandi og skrifstofu UNESCO. Ennfremur hefur hún sinnt fjölbreyttum samskiptum við fulltrúa annarra aðildarlanda stofnunarinnar, og þá sérstaklega samstarfi við aðra norræna fulltrúa.

Video Gallery

View more videos