Kvennakórinn Vox Feminae og Diddú á Ítalíu

Síðast liðin tuttugu og fimm ár hefur Margrét Pálmadóttir, söngkona og kórstjóri leitt kórsöngvara út fyrir landsteinana að kynna íslenska söng- og kóramenningu og jafnframt til að kynnast söngmenningu annarra þjóða. Hún hóf þessar ferðir árið 1986 þegar kór Flensborgarskóla ferðaðist til Rómar og Subiaco á Ítalíu. Sum árin hafa ferðirnar verið fleiri en ein og þótt Ítalía hafi verið efst á blaði eru löndin fleiri: Svíþjóð, Finnland, Danmörk, Grænland, Færeyjar, Þýskaland, Austurríki, Spánn, Bandaríkin. Ítalía hefur ætíð staðið kórum Margrétar næst og  hafa sungið í mörgum helstu borgum landsins  meðal annars  í Róm, Písa, Flórens, Bologna, Mílanó, Asti, Piasenza, Parma, Veróna, Feneyjum.

Margrét og söngskólinn Domus Vox og kórar hennar hafa tekið á móti fjölda erlendra kóra og skipta meðlimir þeirra þúsundum sem notið hafa leiðsagnar um Ísland, haldið tónleika í Reykjavík og allt í kring um landið,  tekið þátt í kóramótum o.s.frv. Margir kóranna hafa síðan endurgoldið gestrisni hennar og tekið á móti kórum Margrétar í sínu heimalandi.

Margrét heldur til Ítalíu með kvennakórinn Vox feminae þar sem sungið verður í Piacenza í Emilia-Romagna héraðinu miðvikudaginn 15. júní kl 18:00 og verður þeim tónleikum sjónvarpað. Einnig mun kórinn syngja í Maríukirkjunni (Santa Maria della Scala) í Veróna,  fimmtudaginn 16. júní kl 21:00, í Feneyjum í San Salvadore kirkjunni laugardaginn 18. júní kl 21:00 og við messu í Markúsardómkirkjunni (San Marco) sunnudaginn 19. Júní kl 12:00.  Loks munu kórfélagar úr hinum ýmsu kórum Margrétar og nemendur í söngskóla hennar, Domus Vox, sameinast í sól og söng í borgainni Massa í Toskana þar sem þeir munu fá leiðsögn í söng og raddþjálfun undir handleiðslu Margrétar og Sigrúnar Hjálmtýsdóttur, söngkonu. Nemendur munu syngja í dómkirkjunni í Massa og víðar í undurfögru héraði.

Margrét Jóhanna Pálmadóttir, söngkona og kórstjórnandi, hóf tónlistarferil sinn í Hafnarfirði þar sem hún, auk píanónáms, söng með Kór Öldutúnsskóla og kirkjukór Hafnarfjarðarkirkju. Hún stundaði söngnám við Tónlistarskóla Kópavogs, Tónlistarháskólann í Vínarborg, Söngskólann í Reykjavík og á Ítalíu. Leiðbeinendur hennar voru meðal annarra Elísabet Erlingsdóttir, Svanhvít Egilsdóttir, Þuríður Pálsdóttir, Lina Pagliughi og Eugenia Ratti. Margrét kom fyrst fram sem einsöngvari 12 ára gömul m.a. í útvarpi og sjónvarpi. Hún söng með Þjóðleikhúskórnum í fjögur ár og tók á þeim tíma þátt í ýmsum uppfærslum með honum. Þá starfaði Margrét sem raddþjálfari Pólýfónkórsins og Söngsveitarinnar Fílharmoníu auk ýmissa annarra kóra og söng með sönghópnum Fjórar klassískar á árunum 1994-2000.
 
Margrét stofnaði Vox feminae 1993, sama ár og hún stofnaði Kvennakór Reykjavíkur, en einnig stofnaði hún og stjórnaði Kór Flensborgarskóla, Barnakór Grensáskirkju, Senjorítunum Stúlknakór Reykjavíkur, Gospelsystrum og sönghópnum Aurora.

Árið 2000 stofnaði Margrét sönghúsið Domus Vox í Reykjavík sem sameinar undir einu þaki söngskóla og kórastarfsemi. Margrét hefur unnið gríðar mikið og fórnfúst frumkvöðla- og hvatningarstarf í þágu stúlkna- og kvennakóra á Íslandi og öðrum Norðurlöndum og hefur verið verðlaunuð og heiðruð með margvíslegum hætti. Meðal annars  hlaut hún bæði riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu árið 2004 og riddarakross hinnar konunglegu sænsku Norðurstjörnu sem  Karl Gustav XVI, Svíakonungur, sæmdi Margréti í opinberri heimsókn sinni í september 2004. Hún hefur einnig unnið til verðlauna með kórum sínum á Ítalíu og heiðruð þar með ýmsum hætti ekki síst af Vadíkaninu í Róm þar sem hún og kvennakórinn Vox feminae vann til silfurverðlauna í alþjóðlegri kórakeppni árið 2000. Kórum hennar hefur margsinnis verið boðið að syngja í Péturskirkjunni í Róm, ekki einungis í kirkjunni sem slíkri heldur einnig við hámessur og aðrar athafnir kirkjunnar.

Margrét hefur verið tilnefnd til verðlauna Evrópusambands kvenna í nýsköpun  European Women Inventors & Innovators Network  2011 sem veitt verða í september  næst komandi.

 

  

Video Gallery

View more videos