Íslenski fjármálamarkaðurinn í brennidepli í París

Fransk-íslenska viðskiptaráðið, með aðstoð sendiráðsins í París, stóð fyrir ráðstefnu um íslenskan fjármálamarkað, beinar fjárfestingar á Íslandi og beinar fjárfestingar Íslendinga erlendis, í París þann 21. mars. Ráðstefnan var haldin í tengslum við komu Geirs H. Haarde, utanríkisráðherra, til Parísar en hann átti vinnufund með starfsbróður sínum, Philippe Douste-Blazy, sama dag. 

Á ráðstefnunni fjallaði Pétur Einarsson, stjórnarformaður Cbridge í London um íslenskar fjárfestingar erlendis og Þórður Hilmarsson, framkvæmdastjóri Fjárfestingastofu, um erlendar fjárfestingar á Íslandi. Þá kynnti Brynjólfur Helgason, framkvæmdastjóri alþjóðasviðs Landsbankans, starfsemi bankans erlendis og Magnús Harðarson, forstöðumaður viðskiptasviðs Kauphallar Íslands, sagði frá íslenskum verðbréfamarkaði og efnahagsmálum.  Gestir voru áhugasamir og beindu fjölmörgum spurningum til ræðumanna.

Að lokinni ráðstefnu var haldinn kvöldverður að utanríkisráherra og sendiherrum landanna, Tómasi Inga Olrich og Nicole Michelangeli, viðstöddum.  Utanríkisráðherra fjallaði þar um forsendur útrásar Íslendinga og íslensk efnahagsmál.  Ræðuna er hægt að nálgast heimasíðu utanríkisráðuneytisins, á frönsku og á íslensku. Sendiherra þakkaði utanríkisráðherra og viðskiptaráðinu fyrir vel heppnaða kynningu á íslensku útrásinni og lagði áherslu á þann anda sjálfstæðis og frumkvæðis, sem einkenndi íslensk viðskiptalíf.

Við þetta tækifæri, undirrituðu Þorlákur Karlsson, forseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík og Jérôme Bon, aðstoðarforseti ESCP-EAP, samstarfssamning um stúdentaskipti sem tekur gildi frá og með næsta skólaári.  Fransk-íslenska viðskiptaráðið hefur unnið ötullega að því að koma þessum samskiptum á og verða þau vonandi öflugur þáttur í að efla viðskiptatengsl landanna í framtíðinni. 

Ráðstefnan og kvöldverðurinn voru haldin í einkar glæsilegum húsakynnum Grand Hotel InterContinental við Garnier óperuna í París, en þess má geta að Íslendingurinn, Krumma (Hrafnhildur) Jónsdóttur er yfirmaður ráðstefnuhalds á hótelinu.   Landsbankinn, Kauphöllinn, Icelandair og Alfesca styrktu viðburðinn.

Um 100 manns sóttu ráðstefnuna og kvöldverðinn.Video Gallery

View more videos