Íslenskar bókmenntir í brennidepli í Montpellier

Stórum hópi íslenskra rithöfunda var boðið á bókmenntahátíðina, La Comédie du Livre, sem haldin var nú um helgina í 29. skiptið og þar sem norrænar bókmenntir voru í öndvegi. Mikill áhugi var á íslensku höfundunum og bókum þeirra. Lesendur stóðu í biðröðum eftir að fá bækur sínar áritaðar og höfðu sumir þeirra ferðast um mörg hundruð kílómetra leið til að hitta höfundana.

Hátíðin hófst með höfundaspjalli með Arnaldi Indriðasyni, en bækur hans njóta mikilla vinsælda í Frakklandi og var hvert sæti tekið í salnum. Arnaldur sagði m.a. frá því að sundum þegar hann skrifar er hann sjálfur svo spenntur að hann getur ekki sofnað og að stundum komi atburðarásin honum sjálfum á óvart. Franska lesendur þyrsti einnig að vita meira um Erlend rannsóknarlögreglumann, helstu sögupersónu Arnaldar. Höfundurinn sagði að hann væri harður húsbóndi og því væri stundum gott að taka sér frí frá honum og skrifa um annað.

Þríleikur Jóns Kalmans Stefánssonar um lífið á Íslandi undir lok 20. aldar hefur fengið mjög góðar móttökur í Frakklandi. Lýsti hann því fyrir fulllum sal af lesendum hvernig  hann varð rithöfundur eftir að hafa byrjað starfsferilinn í fiski og verkavinnu. Eftir að hafa horft upp í stjörnubjartan himininn fékk hann áhuga á stjörnufræði og einsetti sér því að verða stjörnufræðingur þrátt fyrir afar litla kunnáttu í stærðfræði. „En smám saman breyttust stjörnurnar og vetrarbrautirnar í orð, og þá var ég orðinn skáld,“ sagði Jón Kalman. Þá sagðist hann lifa sig svo inn í heim bókanna sem hann skrifar hverju sinni, að hann hafi verið sjóveikur í þrjár vikur meðan hann skrifaði upphafssenu Himnaríkis og helvítis.

Sjón, sem hefur verið kallaður töframaður norðursins af bresku skáldkonunni A.S. Byatt, sagði í höfundaspjalli sem honum var tileinkað m.a. frá því hvernig töfraraunsæi í Íslendingasögunum og íslenskum þjóðararfi hafi haft áhrif á höfundaverk hans. Þá var eðli Íslendinga einnig til umfjöllunar.  Einnig tók hann þátt í pallborði um mörk raunveruleikans og þess ímyndaða ásamt finnska höfundinum Johönnu Sinisalo og hinum norska Lars Saabye Christensen.

Þegar hjartað missir úr slag var yfirskrift pallborðs sem Auður Ava Ólafsdóttir, Bergsveinn Birgisson, Steinunn Sigurðardóttir og hin sænska Katarina Mazetti tóku þátt í. Þar var ástin til umfjöllunar bæði fyrr á tímum og í nútímanum sem og í bókmenntum og raunveruleikanum og komu Íslendingasögurnar einnig til umræðu.

Annað pallborð var tileinkað áhrifum efnahagshrunsins á íslenskar bókmenntir og tengsl stjórnmála og bókmennta sem Arnaldur Indriðason, Árni Þórarinsson og Hallgrímur Helgason tóku þátt í. Niðurstaða þeirra var að hrunið hafi sýnt hvað skipti í raun mestu máli. Bankarnir hafi fallið en bókmenntaarfurinn standi enn eftir.  Þar liggi hin raunverulegu verðmæti.

Árni tók einnig þátt í pallborði um glæpasöguna sem samfélagsrýni ásamt hinni sænsku Maj Sjöwall, sem ásamt eiginmanni sínum Per Walhöö lagði grunninn að norrænu glæpasögunni, og ítalska rithöfundinum Giancarlo de Cataldo.

Bók Bergsveins Birgissonar, Svar við bréfi Helgu, hefur notið mikilla vinsælda í Frakklandi frá því hún kom út síðasta ár og var höfundaspjall hans tileinkað hinu yfirnáttúrulega. Hann sagði ýmsar sögur frá Ströndum þaðan sem hann er ættaður og hvernig hann hafi notað þær, sem og viðtöl sem hann tók við Strandamenn þegar hann var ungur maður, sem efnivið í skrifin.

Boðið var upp á morgunverð með Steinunni Sigurðardóttur í húsasundi fallegs gamals húss í gamla miðbænum í Montpellier. Sagði Steinunn frá því að Vigdís Finnbogadóttir hafi kveikt frönskuáhugann á menntaskólaárunum og lýsti því hvernig það var fyrir hana sem unga konu að marka sér farveg í bókmenntaheiminum þar sem karlmenn voru þá allsráðandi. Einnig var á hátíðinni sýnd kvikmynd sem gerð var eftir Tímaþjófinum, sem og kvikmyndin 101 Reykjavík sem gerð var eftir bók Hallgríms Helgasonar.

Auður Ava Ólafsdóttir settist einnig niður með aðdáendum sínum í spjall yfir árbíti þar sem komust að færri en vildu. Bækur hennar hafa njóta mikilla vinsælda í Frakklandi, einkum Afleggjarinn sem kom út árið 2010 og hafa franskir lesendur einnig tekið Undantekningunni vel, en hún kom út á frönsku fyrr á þessu ári.

Í höfundaspjalli við Hallgrím Helgason var einkum rætt um Konuna við 1000° sem kom út á frönsku í fyrra og tilurð bókarinnar. Einnig var rætt um næstu bók hans sem mun koma út á frönsku, 10 ráð til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp, sem og hvaðan Hallgrímur fær hugmyndir fyrir skrifin og þann ólíka farveg sem hann velur höfundarverki sínu hverju sinni.

Skáldið andspænis sögunni var yfirskrift síðasta pallborðs hátíðarinnar þar sem Jón Kalman Stefánsson, sænski rithöfundurinn Per Olov Enquist og hinn norski Gunnar Staalesen sátu fyrir svörum.  Jón Kalman sagðist aldrei hafa skilið hugtakið sögulegan skáldskap þar sem tíminn komi til þess eins að fara frá okkur. Skáldsagan sé því besta vopnið til að bjarga mannfólkinu frá gleymskunni.

Forsenda þess að íslenskar bækur nái vinsældum í Frakklandi er að sjálfsögðu að til séu góðar þýðingar. Þrír þýðendur komu fram á hátíðinni ásamt þeim höfundum sem þau hafa þýtt bækur eftir, þau Eric Boury sem þýðir m.a. Arnald, Árna,Sjón, Jón Kalman og marga fleiri höfunda, Catherine Eyjólfsson sem þýðir m.a. Auði Övu, Bergsvein og Steinunni og Jean-Christophe Salaün þýðandi Hallgríms, en þýðing hans á Konunni við 1000°er fyrsta bókmenntaþýðing hans sem gefin hefur verið út. Mikil eftirspurn er eftir frönskum þýðingum á íslenskum bókmenntaverkum og því ánægjulegt að Ísland hafi í honum eignast nýjan franskan bókmenntaþýðanda.

Video Gallery

View more videos