Íslandsdagur í Mílanó

Íslandsdagur var haldinn í Mílanó í dag, föstudag, að tilstuðlan borgarstjórans, Letizia Moratti. Af því tilefni er sendinefnd íslenskra fyrirtækja stödd í Mílanó, undir forystu Kristjáns L. Möller, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, en skipulagning ferðarinnar var í höndum utanríkisráðuneytisins og Útflutningsráðs Íslands. Fyrirtæki og samtök sem tóku þátt í Íslandsdeginum eru 23 talsins.

Málþing var haldið í dag sem utanríkisráðuneytið skipulagði en á dagskrá voru kynningar á samskiptum landanna svo og á íslenskri hönnun og nýsköpun. Þá hafði Útflutningsráð skipulagt viðskiptafundi með sérstakri áherslu á ferðaþjónustu á sviði funda og ráðstefna, auk þess skapa tækifæri fyrir þau íslensku fyrirtæki sem eru áhugasöm um að hasla sér völl á ítalska markaðinum, til að koma sér á framfæri og funda með líklegum samstarfsaðilum.

Í lok dagsins var opnuð ljósmyndasýning með myndum frá Íslandi í einni fjölförnustu göngugötu Mílanóborgar, Corsa Vittario Emanuel, þar sem um 900 þúsund manns fara um í viku hverri.Video Gallery

View more videos