Ísland var heiðursland sýningarinnar Foire Internationale de Caen

Tugir Íslendinga tóku þátt í sýningunni Foire Internationale sem haldin var dagana 15.–26. september í Caen í Frakklandi. Ísland var heiðursland sýningarinnar sem 220 þúsund gestir sóttu heim. 18 íslensk fyrirtæki og handverksmenn seldu vörur sínar og þjónustu auk þess sem lista- og fræðimenn tóku þátt í íslenskri menningardagskrá.

Undirbúningur sýningarinnar stóð yfir í ár og lögðu sýningarhaldarar í mikinn kostnað við gerð Íslandsþorps og kynningu á Íslandi sem heiðursgesti sýningarinnar. 

Í Íslandsþorpinu, sem staðsett var í hjarta sýningarinnar, mátti finna 12 íslenskar verslanir, ferðaskrifstofur, kaffihús, bókabúð og svið fyrir íslenska menningardagskrá.  

Mikið var lagt í að búa til skemmtilegt íslenskt umhverfi með hrauni, bullandi hver og ísjökum. Gestum bauðst auk þess að snæða mat með íslensku ívafi, fiskrétti, skyr og íslenskt vatn á veitingastaðnum Le Viking.  

Menningardagskrá var í boði alla daga þar sem meðal annars voru kynntar bókmenntir, dans og tónlist. Jólasveinar úr Mývatnssveit, íslenski dansflokkurinn Sporið úr Borgarfirði og Tríóið Guitar Islancio skemmtu gestum daglega og vöktu mikla lukku.  Viðamikil dagskrá með kynningu á íslenskum bókmenntum fyrir börn og fullorðna fór fram á bókmenntakaffihúsinu “Café littéraire”, í Íslandsþorpinu.  Meðal þátttakenda á bókmenntakynningunni voru Jean Renaud, formaður norrænu deildarinnar við Caen háskóla, Steinunn Le Breton, ræðismaður Íslands í Caen og fyrrum kennari við háskólann, rithöfundarnir Þórarinn Eldjárn og Andri Snær Magnason auk þýðendanna Régis Boyer og Eric Boury.  Sögu frönsku sjómannanna sem sóttu Íslandsmið fyrr á öldum voru gerð sérstök skil með aðstoð Elínar Pálmadóttur og Æsu Sigurjónsdóttur.  Sérstök dagskrá var helguð íslenskri náttúru, dýralífi, og jarðfræði.  Jafnframt var haldin kynning á Íslandi sem áfangastað fyrir ferðamenn.

Umfjöllun fjölmiðla í Normandí á sýningunni var mjög öflug og skipaði Ísland þar veglegan sess.  Hópi franskra blaðamanna var boðið til Íslands til að kynnast landinu og blaðamannafundir vegna atburðarins hlutu mjög mikla aðsókn.  Það er óhætt að fullyrða að um einstaka landkynningu hafi verið að ræða.Video Gallery

View more videos