Ísland á bókakaupstefnunni í Madríd 11. árið í röð

Ísland er með í Norðurlandabásnum á hinni árlegu Madrídarbókakaupstefnu sem stendur þessa dagana – frá 26. maí til 11. júní – undir berum himni í Retiro-skrúðgarðinum þar í borg. Þetta er 11. árið í röð sem íslenskar bókmenntir eru þar á boðstólum, allt frá helstu fornsögum til nútímabókmennta.

Sendiráð Íslands í París tekur enn sem fyrr þátt í samvinnu norrænu sendiráðanna í Madríd um Norðurlandabásinn.

Fjölmarga íslenska titla þýdda á spænsku má finna þessa dagana í Norðurlandabásnum í Retiro-skrúðgarðinum í Madríd. Þar eru verk eins og Brekkukotsánnáll Halldórs Laxness og Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar eftir Guðberg Bergsson, en Enrique Bernárdez hefur þýtt hvort tveggja; Englar alheimsins eftir Einar Má Guðmundsson og Slóð fiðrildanna eftir Ólafs Jóhann Ólafsson, sem José Anontio Fernández Romero þýddi; eða Pósthólf dauðans eftir Kristin R. Ólafsson. Íslenskar fornbókmenntir vantar ekki heldur en þar mætti nefna Eddukvæði og Snorraeddu, sem Luis Lerate þýddi, Njálu (þýð.: E. Bernárdez), Gísla sögu Súrssonar (þýð.: J.A. Fernández Romero), Eyrbyggju (þýð.: María Pilar Fernández Álvarez og Teodoro Manrique), Ynglingasögu (þýð.: Santiago Ibáñez) og sjálfa Bósasögu sem Mariano González Campo hefur þýtt.

Þetta er 65. árið sem bókakaupstefnan í Madríd er haldin undir berum himni í Retiro-garðinum þar sem bóksalar, bókaútgáfur, dreifendur, opinberar stofnanir og menningarstofnanir bjóða bækur sínar í 346 sölubásum. Ár hvert sækja rúmlega 3 milljónir gesta þessa miklu bókahátíð en meðfram henni eru skipulagðir ýmiskonar menningarviðburðir. Í ár eru þeir um 300 og þar vekur einn sérlega athygli. Það er sýningin Jörðin séð úr lofti: eitthundrað ægifagrar ljósmyndir eftir Frakkann Yann-Arthus Bertrand af tugum staða á jarðkúlunni; þar á meðal Bláa lóninu.Video Gallery

View more videos