Frakkar vilja aukið samstarf við Íslendinga

Íslensk og frönsk stjórnvöld munu stórauka samstarf um norðurslóðarannsóknir. Þetta kom fram á fundi Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra með Alain Juppé utanríkisráðherra Frakklands í París í dag og var nánar útfært á fundi ráðherra með Michel Rocard fyrrverandi forsætisráðherra og sérlegum sendiherra Frakka í málefnum heimskautasvæðanna.

Frakkar bjóða íslenskum vísindamönnum aðstöðu í rannsóknarstöðvum sínum á Svalbarða og Suðurskautslandinu og senda sína sérfræðinga til starfa við norðurslóðarannsóknir á Akureyri. Íslendingar og Frakkar vilja koma á aukinni samvinnu milli Háskólans á Akureyri og hinnar virtu Pierre og Marie Curie vísindastofnunar í París. Íslendingum verði sérstaklega boðin þátttaka í stóru verkefni um efnahagsleg og félagsleg áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum. Þá ætli löndin að halda sameiginlega ráðstefnu á vettvangi OECD um norðurslóðamál þar sem jafnhliða yrði sett upp sýning með verkum Ragnars Axelssonar ljósmyndara.

Á fundi Össurar og Juppé fór utanríkisráðherra yfir endurreisn Íslands eftir efnahagshrunið og þakkaði Frökkum stuðninginn við efnahagsáætlunina hjá AGS.  Ráðherra fór yfir sjónarmið Íslendinga í Icesave deilunni og skýrði frá því hvernig endurheimtur úr búi Landsbankans myndu standa undir forgangskröfum.

Ráðherrarnir ræddu þá valkosti sem Íslendingar stæðu frammi fyrir í gjaldeyrismálum og kom fram að franski utanríkisráðherrann taldi Evruna augljóslega besta kostinn fyrir Íslendinga, sérstaklega eftir aðgerðirnar sem hefði verið farið í á Evrusvæðinu.

Utanríkisráðherra lýsti stöðunni í viðræðum Íslands og Evrópusambandsins og gerði grein fyrir mikilvægi sjávarútvegsmála fyrir íslenskan efnahag og þjóðarsál. Ráðherra sagði það eindreginn vilja Íslendinga að hefja efnislegar viðræður um sjávarútvegsmálin sem fyrst. Franski ráðherrann tók undir að viðræðurnar hefðu hingað til gengið vel, lýsti vilja til að erfiðir kaflar yrðu opnaðir sem fyrst og kvaðst þess fullviss að hægt yrði að ná ásættanlegum lausnum.

Alain Juppé fór yfir afstöðu Frakka og Evrópusambandsins gagnvart kjarnorkuáætlun Írana og hugmyndum ísraelskra ráðamanna um árásir á írönsk skotmörk. Eins ræddu ráðherrarnir hvernig unnt væri að binda enda á fjöldamorð Sýrlandsstjórnar gegn þegnum sínum og koma á friði í landinu.

Video Gallery

View more videos