Ecoprocess í hröðum vexti

Þann 17. janúar sl. var undirritaður sölu- og þjónustusamningur í sendiráðinu í París á milli Ecoprocess og SITA (SUEZ) að viðstöddum sendiherra Íslands. Ecoprocess var stofnað árið 2002 og er með höfðustöðvar sínar á Íslandi en meginstarfsemina í Frakklandi. Þar starfa nú 25 manns við að þróa, framleiða og selja lyftur fyrir sorphirðubíla sem upphaflega eru byggðar á íslenskri tækniþekkingu.   

Búnaðurinn gerir SITA kleift að draga úr eldsneytisnotkun bílanna um 15% auk þess að vera mun léttari og hljóðlátari og ekki síst öruggari fyrir starfsfólk.  Um byltingu er að ræða fyrir sorphirðu þar sem rafeindatæknin gerir búnaðinum jafnframt kleift á safna gögnum um sorphirðuna og fylgjast með mælanlegum árangri hennar um leið og hún á sér stað. SITA staðfestir að búnaðurinn hafi ráðið miklu um að þeir hafi náð stórum sorphirðuverkefnum undanfarið, m.a. í Lyon og víðar, þar sem borgaryfirvöld setja kröfur um notkun umhverfisvæns búnaðar.

Samningurinn er gerður í kjölfar kaupa SITA á um 70 Ecoprocess-lyftum til notkunar í St Etienne, Toulouse og Lyon, og byggir undir frekari kaup SITA samsteypunnar á raflyftum Ecoprocess bæði til reglubundinnar endurnýjunar á bílaflotaflota þeirra og til hreinna útskipta á núverandi lyftum vegna umhverfis- og öryggissjónarmiða. Áætlað er að SITA geri nú út nálega 15.000 sorphirðubíla. 

Ecoprocess

Florence Milon framkvæmdastjóri Ecoprocess France, Þorvaldur Tryggvason stjórnarformaður Ecoprocess, Cyril Fraissinet,  aðstoðarforstjóri umhverfissviðs Suez Environment , Unnur Orradóttir-Ramette viðskiptafulltrúi sendiráðsins í París, Tómas Ingi Olrich, sendiherra í París og Eric Spencer, innkaupastjóri hjá SITA

Ecoprocess hefur þegar selt fjölda lyfta til ýmissa borga Evrópu og vann að þróun á þeim með Véolia Environnement, en SITA og Véolia Environnement eru langstærstu alþjóðlegu fyrirtækin í heiminum í sorphirðu.  Móðurfyrirtæki þeirra, Suez og Véolia eru jafnframt stærstu fyrirtæki á heimsvísu í grunnþjónustu til heimila og fyrirtækja hvað varðar orkuframleiðslu og -dreifingu, vatnshreinsun og -dreifingu, sorphirðu og endurvinnslu á sorpi.

Ecoprocess (www.ecoprocess.com) er nú í mjög örum vexti og mun bráðlega flytja inn í þrefalt stærra húsnæði við alþjóðaflugvöllinn í Nantes. Hjá fyrirtækinu starfa nú alls tæplega 40 manns, á Íslandi, í Frakklandi og í Bretlandi.

Að sögn Þorvaldar Tryggvasonar er samningurinn við SITA þýðingarmikil viðurkenning á stöðu Ecoprocess á sviði hreinnar tækni (CleanTech) og bættum starfsháttum í sorphirðu, auk þess að fela í sér grunn fyrir verulegar tekjur og mikinn vöxt fyrir fyrirtækið á næstu árum. Þorvaldur segir jafnframt von á frekari landvinningum því Ecoprocess eigi nú í samningum við fleiri stóra aðila í Evrópu.Video Gallery

View more videos