Air d’Islande 2012 er hafin í París

Íslenska menningarhátíðin Air d’Islande býður Parísarbúum upp á tónlist, kvikmyndir og samtímalist frá Íslandi fram til 15. apríl. Þetta er fjórða árið í röð sem hátíðin er haldin og hefur dagskráin aldrei verið viðameiri.

Auk hinnar hefðbundnu dagskrár í París er boðið upp á íslenska menningarviðburði í bænum Chessy-Sur-Marne, meðal annars tónleika með For a Minor Reflection og sýningu á kvikmyndinni Ikingut eftir Gísla Snæ Erlingsson. Frumkvæðið að þessari nýjung kom frá bæjarstjórn Chessy og er það til marks um þá miklu athygli sem Air d’Islande hefur vakið í Frakklandi síðustu ár.

 

Feldberg á Air d'Islande 2011

Fjöldi viðburða í París hefur einnig aukist frá síðasta ári. Listakonan Rúrí mun sýna verk sín á hátíðinni og boðið verður upp á sannkallaða tónlistarveislu á einum skemmtilegasta tónleikastað Parísar, Point Ephémère, helgina 14.-15 apríl. Þar munu For a Minor Reflection stíga á stokk ásamt Reykjavík!, kimono, Kríu Brekkan, Lazyblood og Snorra Helgasyni.

Kvikmyndadagskrá hátíðarinnar er heldur ekki af verri endanum í ár. Sýndar verða myndirnar Brim, Mamma Gógó og fjöldi stuttmynda eftir íslenska leikstjóra, m.a. Sailcloth eftir Elfar Aðalsteins. Þar að auki verða myndir um íslenska tónlist í stóru hlutverki og gefst hátíðargestum kostur á að sjá heimildarmyndina Amma Lo-Fi, sem hlotið hefur mikið lof gagnrýnenda, Reykjavík rafmögnuð, sem tekur stöðuna raftónlistarlífinu í Reykjavík, og SigurRósarmyndirnar Inni og Heima.

Áhugasamir geta nálgast dagskrá Air d’Islande á nýrri heimasíðu hátíðarinnar, www.airdislande.com.

Air d’Islande er haldin í nánu samstarfi við íslenska sendiráðið í París, Icelandair, Inspired by Iceland og Höfuðborgarstofu.

Upplýsingar og viðtöl

Páll Tómas Finnsson
Kynningarfulltrúi Air d’Islande á Íslandi
palltomas@finnsson.dk
+45 2925 4945

Ari Allansson
Hátíðarstjóri Air d’Islande
ari@airdislande.com
+33 (0)6 3141 2578

 

 

 

 

Hjaltalín á Air d'Islande 2011

Video Gallery

View more videos