Sturlungaöldin - L'âge des Sturlungar

Undanfarin ár hefur tíðkast að halda bókmenntaþing í bústað sendiherra í París nærri 1. desember. Í ár var þingið haldið til heiðurs Régis Boyer, þýðanda og prófessor við Sorbonne-háskóla. Régis Boyer hefur verið burðarás í rannsóknum Frakka á norrænum bókmenntum, og á heiðurinn af því hve þessum rannsóknum og kennslu í norrænum fræðum hefur verið skipaður hár sess í háskólastarfi í París. Boyer hefur þýtt fjölda Íslendingasagna á frönsku auk fjölda annarra bókmenntaverka, bæði á íslensku og öðrum Norðurlandamálum, og nú nýlega kom Sturlunga saga út í þýðingu hans. Var þingið af þessum sökum helgað Sturlunga sögu og útgáfu Boyers á frönsku.

Rúmlega 130 manns sátu þingið og fylltu stofur bústaðar sendiherra síðdegis laugardaginn 26. nóvember 2005. Til þingsins var boðið frönsku bókmenntafólki, Íslendingum búsettum í París og nágrenni sem og öðrum sem tengjast íslenskukennslu og íslenskum bókmenntum í Frakklandi. Tómas Ingi Olrich, sendiherra, flutti inngangsorð og rifjaði þar upp fjölbreyttar þýðingar Régis Boyer og þakkaði honum framlag hans til kynningar á íslenskum bókmenntum í Frakklandi.

Régis Boyer flutti næstur erindi þar sem hann rifjaði upp kynni sín af íslenskum bókmenntum. Hann gat þess sérstaklega að prófessorarnir Sigurður Nordal og Einar Ólafur Sveinsson hefðu báðir lagt til að hann glímdi við Sturlungu til að freista þess að skilja innviði íslenskrar miðaldamenningar og þess samfélags sem gat af sér svo mikinn bókmenntaarf. Af þeim sökum hafi hann snemma haft í huga að þýða Sturlungu á frönsku og nú væri þeim áfanga náð. Régis Boyer dró upp í fáum en afar skýrum dráttum mynd af íslensku miðaldasamfélagi og af íslenskum bókmenntum, og gerði grein fyrir stöðu og sérkennum Sturlungu innan þessa mikla bókmenntaarfs. Fór Boyer, sem hefur lifað og hrærst í íslenskum bókmenntaheimi um langt árabil, á kostum í lýsingum sínum á Sturlungaöld og þeim verkum sem þessi umbrotatími gat af sér. Hann útskýrði sögu Sturlungusafnsins og rakti ættir Sturlunga og fleiri stórætta á umbrotatímum í íslenskri sögu.

Patrick Guelpa, íslenskukennari við háskólann í Lille, flutti næstur erindi um Guðmundar sögu Arasonar, sem bar heitið „Cléricalisme des clercs et cléricalisme des laïcs dans la Sturlungasaga. Le cas de l’évêque Gudmundur Arason.“ Þar rakti hann biskupslýsingu og samspil leikra og lærðra í Guðmundar sögu Arasonar og tók fjölda dæma úr þýðingu Boyer.

Einar Már Jónsson, íslenskukennari við Sorbonne-háskólann í París flutti loks erindi um Þórð Kakala og sögu hans í Sturlungu. Benti Einar á, að svo virtist sem sagan hefði sérstaklega verið skrifuð til að skapa ákveðna ímynd Þórðar. Fátt eitt af verkum Þórðar, sem lýst væri í sögunni í Sturlungu, ætti sér stoð annars staðar og væri af þeim sökum forvitnilegt að skoða sögu hans sem verk ímyndarsérfræðinga fyrr á öldum.

Sendiherra, Tómas Ingi Olrich, þakkaði ræðumönnum fyrir fróðleg erindi sín að loknum nokkrum spurningum úr sal. Að því loknu var gestum boðið upp á léttar veitingar og mátti heyra á öllum, að erindin hefðu þótt hin fróðlegustu.Video Gallery

View more videos