Natural Resources - Náttúruauðlindir: Sýning listakonunnar Guðrúnar Benediktu Elíasdóttur í Lúxemborg

Nú á vormánuðum stendur yfir ellefta einkasýning Guðrúnar Benediktu Elíasdóttur að Hotel Parc Beaux-Arts, í hjarta Lúxembogar. 

Sýningin hefur vakið verðskuldaða athygli og hafa íslendingar búsettir í Lúxemborg sem og aðrir notið verka hennar.

Guðrún Benedikta er þekkt fyrir myndlist sem tengist manninum, náttúrinni og áhrifum mannsins á umhverfi sitt.  Hún hefur haldið fjölda einkasýninga og samsýninga bæði á  Íslandi, Frakklandi, Þýskalandi og nú síðustu tvær sýningar í Lúxemborg.

Allt frá því hún hélt sína fyrstu einkasýningu  “Lífið í götunni” (1997), þar sem hún beinir sjónum niður fyrir fætur okkar og dregur fram, í skemmtilegum akrílmydum, smáatriði sem við gefum ekki sérstakan gaum dags daglega, hefur hún þróað myndlist sína út fyrir borgina þar sem hún skyggnist inn í gæði náttúrunnar.

Myndlist Guðrúnar Benediktu síðustu ár einkennist af földum mannlegum mótívum í nátturinni, innan stokka og steina, fossa og fjalla, fjöru og sjávar, náttúru sem tengist íslenskum uppruna hennar og er svo stór hluti af íslenskum mannauð.

Á sýningunni eru verk unnin síðustu mánuð þar sem listakonan beitir heitari litum en áður í bland við hefðbundna kalda liti.   Í sínum nýjustu myndum dregur hún mun meira fram en áður mannleg mótív með mjúkum, öruggum línum innan um stórbrotna náttúru.

Myndirnar á sýningunni eru ýmist unnar með akríl málningu eða úr náttúrulegu litadufti sem hún blandar saman við blöndu úr mjólk, sykri, eggjum og hvítvíni.  Blöndun litaduftsins byggir á gamalli suður-evrópskri uppskrift, “Patine au vin”, við meðhöndlun bindiefna og nást þannig fram hreinir og tærir tónar sem njóta sín vel í verkum hennar.

Myndlist Guðrúnar Benediktu er í anda “Realisme Poétique”  -  ljóðræns raunsæis.Video Gallery

View more videos