Viljayfirlýsing ríkisstjórnar Íslands og Færeyja

Auka samvinnu Færeyja og Íslands

Í viljayfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands og landsstjórnar Færeyja, sem undirrituð var á sérstakri ráðstefnu sem haldin var í Þórshöfn í Færeyjum 5 mars sl., kemur fram eindreginn vilji landanna tveggja til að auka samvinnu sín á milli. Sérstök áhersla er lögð á atvinnuþróun og nýsköpun með það að markmiði að þekking sem verður til í öðru landinu nýtist í hinu.

Þá er einnig í yfirlýsingunni lögð áhersla á að varðveita sameiginlega menningararfleifð þjóðanna tveggja og viðhalda vinarhug og samkennd sem ríkt hafi í samskiptum þeirra.

Stefnt er að því að halda ráðstefnu þar sem fjallað verður um þessi mál ekki sjaldnar en á tveggja ára fresti.

Viljayfirlýsinguna undirrituðu atvinnu- og fjármálaráðherrar landanna tveggja, þau Steingrímur J. Sigfússon og Katrín Júlíusdóttir frá Íslandi og Johan Dahl og Jörgen Niclasen frá Færeyjum.

Ráðstefnan var haldin í framhaldi af ákvörðun íslensku ríkisstjórnarinnar frá því í desember sl. til að sýna Færeyingum þakklæti fyrir þann mikla vinarhug, sem þeir sýndu okkur Íslendingum með peningaláni án skilyrða eftir efnahagshrunið í október 2008. Ráðstefnan var haldin í Norðurlandahúsinu í Þórshöfn í Færeyjum og á annað hundrað manns sóttu hana.

Til nánari fróðleiks fylgir með dagskrá ráðstefnunnar og yfirlýsingin.

 

Video Gallery

View more videos