Declaration of Cooperation between EFTA and Peru

EFTA ríkin stefna á að auka samstarf í viðskipta- og efnahagsmálum við Perú, en í dag undirrituðu löndin samstarfsyfirlýsingu þar að lútandi. Yfirlýsing af þessu tagi er gjarnan undanfari samningaviðræðna um fríverslun af hálfu EFTA ríkjanna.

Það voru sendiherrar EFTA ríkjanna í Genf og Pablo de la Flor Belaúnde, aðstoðarutanríkisviðskiptaráðherra Perú, sem undirrituðu yfirlýsinguna á mánudag. Kristinn F. Árnason, sendiherra Íslands í Genf, undirritaði skjalið fyrir Íslands hönd.

Með yfirlýsingunni er sett á fót sameiginleg nefnd ríkjanna sem mun funda reglulega um viðskiptamál. Með yfirlýsingunni er stefnt að því að auka samstarfið milli Perú og EFTA landanna fjögurra, Íslands, Liechtenstein, Noregs og Sviss, hvað varðar vöruviðskipti, þjónustuviðskipti og fjárfestingar. Þá er í yfirlýsingunni lögð áhersla á að auka frelsi í viðskipti milli landanna, einkum með því að ryðja úr vegi tæknilegum hindrunum í viðskiptum, lækka tolla landanna á milli, stuðla að góðum vinnubrögðum við tollafgreiðslu, auka upplýsingagjöf og fleira.

Viðskipti milli Íslands og Perú hafa ekki verið mikil síðustu ár, en ljóst er að mikil tækifæri liggja á þessum 28 milljón manna markaði. Árið 2005 nam útflutningur frá Perú um 17 milljörðum bandaríkjadala. Helstu útflutningsvörur landsins eru gull, kopar, fiskimjöl, eldsneyti, sink, textílvörur, fatnaður, aspas og kaffi. Sama ár fluttu Perúmenn inn fyrir 12.5 milljarð bandaríkjadala, einkum vélbúnað, farartæki, unnin matvæli, eldsneyti og stál.

Video Gallery

View more videos