Reglubundin endurskoðun WTO á viðskiptastefnu Íslands

Mjög jákvæð mynd er dregin upp af íslensku viðskipta- og efnahagslífi í úttekt Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), en í dag lauk þriðju endurskoðun á viðskiptastefnu Íslands. Niðurstaða WTO er að lífskjör á Íslandi séu með þeim bestu í heiminum, sem stafi meðal annars af því hversu opið efnahagskerfið er. Það hafi gert Íslandi kleift að sérhæfa sig á ákveðnum sviðum viðskipta.

 Íslenska sendinefndin, undir formennsku Kjartans Jóhannssonar sendiherra og Grétars Más Sigurðssonar, skrifstofustjóra viðskiptaskrifstofu, svaraði spurningum  aðildarríkja stofnunarinnar og gerði grein fyrir áherslum Íslands. Sendiherra Kólumbíu stýrði fundinum og fulltrúi Bandaríkjanna leiddi umræðu af hálfu annarra aðildarríkja. Ísland fékk fjölda spurninga, meðal annars um ástand efnahagsmála, heimildir til fjárfestinga, hugverkarétt, stöðu tollamála og landbúnað. Þá var sérstaklega óskað eftir upplýsingum um íslenska fiskveiðistjórnun og var gerð sérstök grein fyrir henni.

Ísland góð fyrirmynd annarra smáríkja

Í lokaorðum fundarstjórans var Íslandi hrósað og nefnt að það væri gott dæmi um hvernig lítil efnahagskerfi með tiltölulega fáar auðlindir geti byggt upp þekkingu og nýsköpun og hagnast þannig á þátttöku í hinu fjölþjóðlega viðskiptalífi. 

Úttektin fer fram á sex ára fresti og er þá fjallað um stöðu efnahagsmála og helstu breytingar sem hafa átt sér stað í viðskiptaumhverfi landsins frá síðustu úttekt. 

Ísland hefur á tímabilinu aukið fjölbreytni í efnahagslífi og unnið að þjóðhagslegum breytingum í frjálsræðisátt. Breytingar á viðskiptaumhverfi, meðal annars með einkavæðingu ríkisfyrirtækja, stuðningi við rannsóknir og þróun, og skattalækkanir hafa haft jákvæð áhrif.

Þakkir fyrir virka þátttöku í Doha-lotunni

Ennfremur var Íslandi sérstaklega þakkað fyrir að taka að sér ábyrgðarstörf á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og virka þátttöku í Doha-samningalotunni, meðal annars með tillöguflutningi um afnám ríkisstyrkja í sjávarútvegi, lækkun tolla á almennar iðnaðarvörur og sjávarfang og á sviði landbúnaðarviðræðnanna.

Skýrsla stofnunarinnar er aðgengileg á vef WTO, ásamt skýrslu íslenskra stjórnvalda sem lögð var fyrir stofnunina af þessu tilefni.

http://www.wto.org/english/tratop_e/tpr_e/tp265_e.htmVideo Gallery

View more videos