Ræða utanríkisráðherra á 34. reglubundnum fundi Mannréttaráðs Sameinuðu þjóðanna

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, lagði áherslu á að mannréttindi væru hornsteinn í utanríkisstefnu Íslands í ávarpi sínu fyrir Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna 27. febrúar 2017, en þetta er í fyrsta skipti sem utanríkisráðherra Íslands sækir árlega ráðherraviku mannréttindaráðsins frá því að það var sett á fót í núverandi mynd fyrir um tíu árum.

 

Í ræðu sinni sagði Guðlaugur Þór að ekki væri hægt að ætlast til að mannréttindi séu virt í fjarlægum löndum ef ekki er hugað fyrst að stöðu mannréttinda heima fyrir. Þess vegna fögnuðu íslensk stjórnvöld því að fá tækifæri til að undirgangast þá jafningjarýni sem fram fer á vegum Mannréttindaráðsins, en Ísland var tekið fyrir í annað skipti hjá ráðinu sl. haust. Margar góðar ábendingar hefðu borist frá öðrum aðildarríkjum S.þ. í jafningjarýninni, bæði nú og síðast þegar Ísland undirgekkst rýnina, árið 2011. 

 

Utanríkisráðherra gagnrýndi víðtæk mannréttindabrot í Norður-Kóreu og á Filippseyjum þar sem meintir glæpamenn hafa verið teknir af lífi án dóms og laga. Þá harmaði hann hlutskipti óbreyttra borgara í löndum eins og Jemen og Sýrlandi þar sem stríð hafa geisað. Ennfremur gagnrýndi ráðherrann bágborna stöðu kvenna í Sádí-Arabíu, ofsóknir gegn minnihlutahópum í Myanmar og gegn hinsegin fólki (LGBTQ) víða um heim. Ráðherra lýsti ennfremur áhyggjum af stöðu mála í austurhluta Úkraínu og á Krímskaga. Þá hvatti hann tyrknesk stjórnvöld, þrátt fyrir erfiða stöðu, til að virða skuldbindingar sínar í mannréttindamálum, þ.m.t. að tryggja sjálfstæði dómskerfisins og virða frelsi fjölmiðla.

 

Upptaka af ávarpi utanríkisráðherra: http://webtv.un.org/watch/iceland-high-level-segment-2nd-meeting-34th-regular-session-human-rights-council/5338293184001

 

Sjáræðu hér (pdf)

Video Gallery

View more videos