Ný íslensk vegabréf

Við viljum láta alla Íslendinga hér á svæðinu vita að frá og með 17. maí er ekki lengur hægt að taka við vegabréfaumsóknum hjá fastanefndinni eða ræðismönnum Íslands í Sviss.

Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að hefja frá þeim degi útgáfu nýrra íslenskra vegabréfa með lífkennaupplýsingum. Slík útgáfa, sem einnig er að hefjast í ýmsum fleiri Evrópulöndum á næstu mánuðum, krefst þess að sérstakur búnaður sé til staðar þar sem tekið er við umsókn.

Í vegabréfunum verður stafræn mynd og fingraför vegabréfshafa varðveitt á örflögu og er með því ætlunin að tryggja betur öryggi flugfarþega.

Stefnt er að uppsetningu búnaðar til þessa í sendiráðum Íslands í Kaupmannahöfn, Osló, Stokkhólmi, London og Washington í júlí 2006.

Núgildandi vegabréf gilda að sjálfsögðu áfram eins og gildistími þeirra segir til um.

Fastanefnd og ræðismaður geta framlengt vegabréf um allt að eitt ár frá þeim degi sem vegabréf rennur út. Fastanefnd og ræðismaður geta einnig gefið út neyðarvegabréf í brýnustu neyð.

http://www.vegabref.is/frettir/nr/11Video Gallery

View more videos