Alþjóðaviðskiptastofnunin

(World Trade Organization - WTO)

Ísland gerðist aðili að GATT-samningnum 21. apríl 1968 og síðar stofnaðili að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) sem tók við af GATT. WTO var sett á laggirnar 1. janúar 1995 í kjölfar Úrúgvæviðræðnanna, sem var áttunda og umfangsmesta viðskiptalotan innan vébanda GATT-samningsins frá 1947.

WTO myndar lagalegan og stofnanalegan ramma utan um hið fjölþjóðlega viðskiptakerfi. Grundvallarmarkmið stofnunarinnar er að auka frjálsræði og tryggja réttaröryggi í heimsviðskiptum og stuðla þar með að hagvexti og efnahagslegri þróun.

Starfssvið WTO er ekki einskorðað við endurbættan GATT-samning um vöruviðskipti (GATT 1994). Alls eru 29 samningar í umsjá stofnunarinnar, þ.á.m. samningar um landbúnað, þjónustuviðskipti, hugverkaréttindi og lausn deilumála. WTO er ætlað að hafa eftirlit með framkvæmd þessara samninga, vera vettvangur fjölþjóðlegra samningaviðræðna á viðskiptasviðinu, leysa viðskiptadeilur sem upp kunna að koma milli samningsaðila og taka viðskiptastefnu þeirra til skoðunar með reglubundnum hætti. Viðskiptastefna Íslands er tekin til athugunar á 6 ára fresti og er næsta fyrirtaka hennar ráðgerð í júní 2006.

Doha-samningalotan

Á ráðherrastefnu aðildarríkja WTO sem haldin var í Doha Katar í nóvember 2001 var samþykkt að hefja nýjar samningaviðræður um alþjóðaviðskipti í því skyni að draga enn frekar úr viðskiptahömlum og fella fleiri svið viðskipta undir alþjóðlegar reglur. Samningaviðræðurnar hafa dregist á langinn en að fyrirsögn ráðherrastefnu WTO sem haldin var í Hong Kong í desember 2005 var ákveðið að reyna til þrautar að ljúka viðræðunum á árinu 2006.

Samningaviðræðunum er stjórnað af aðalsamninganefnd WTO (Trade Negotiations Committee, TNC) en undir henni starfa níu samninganefndir sem fara með einstök samningssvið. Samninganefndirnar halda hittast nokkra daga í senn á þriggja til sex vikna fresti og sinnir fastanefndin hagsmunagæslu fyrir Íslands hönd. Fulltrúar frá landbúnaðarráðuneyti taka virkan þátt í starfi samninganefndarinnar um landbúnað og fulltrúar frá sjávarútvegsráðuneytinu taka virkan þátt í starfi samninganefndarinnar um viðskiptareglur þar sem meðal annars er reynt að reisa skorður við skaðlegum ríkisstyrkjum í sjávarútvegi. Starfi samninganefndarinnar um markaðsaðgang annarra vara en landbúnaðarvara (Non Agricultural Market Access, NAMA) er sinnt eftir föngum og er meðal annars rétt að geta þess að fastafulltrúi Íslands gegndi formennsku í þeirri samninganefnd um tveggja ára skeið frá 2004 til ársbyrjunar 2006. Til viðbótar er rétt að geta sérstaklega samninganefndarinnar um þjónustuviðskipti sem fastanefnd fylgist grannt með.  Þar er unnið að því að auka frelsi á sviði þjónustuviðskipta með ferli sem felur í sér tilboð og kröfur aðildarríkjanna á hvert annað, auk samninga um regluverk og umgjörð þjónustuviðskipta.

Doha samningalotan

World Trade Organization

Video Gallery

View more videos