Stofnanir Sameinuðu þjóðanna í Genf (UNOG)

Meginþungi starfs Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamstarfs almennt á sviði mannréttinda- og mannúðarmála fer fram í Genf, þar sem er að finna m.a. Mannréttindaskrifstofu S.þ., Flóttamannastofnun S.þ., Mannúðarskrifstofu S.þ. auk fjölda ráða og nefnda sem starfa undir Sameinuðu þjóðunum. Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna eru hins vegar í New York.

Fastanefnd sinnir fundarsókn og verkefnum sem tengjast þessum stofnunum. Hér að neðan er að finna tengla og stutta umfjöllun um nokkrar helstu stofnanir S.þ. í Genf.

United Nations Office at Geneva


Mannréttindastofnanir Sameinuðu þjóðanna

Mannréttindafulltrúi S.þ.
(Office of the High Commissioner for Human Rights - OHCHR)

Mannréttindaráðið
(Human Rights Council - HRC)

Office of the High Commissioner for Human Rights - OHCHR

Mannréttindastarf Sameinuðu þjóðanna fer aðallega fram á vettvangi allsherjarþingsins í New York, Mannréttindaráðsins í Genf, mannréttindanefndarinnar í New York svo og hjá embætti Mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna í Genf. Af hálfu Íslands starfa ýmsir aðilar að mannréttindamálum innan Sameinuðu þjóðanna, bæði ráðuneyti og stofnanir svo og ýmis samtök. Grundvöllur þess starfs er Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna, sem samþykkt var á allsherjarþinginu sem haldið var í París 1948.

Á allsherjarþinginu 1993 var sett á laggirnar embætti Mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna. Hann ber meginábyrgð á starfi samtakanna að mannréttindamálum og nýtur við það aðstoðar Mannréttindaskrifstofunnar (Human Rights Center) í Genf.

Á allsherjarþingi S.þ. haustið 2005 var ákveðið að í stað mannréttindaráðs sem stofnað var undir Efnahags- og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðanna 1946 (ECOSOC), skyldi komið á fót nýju ráði, sem væri jafnsett ECOSOC. Með ályktun í mars 2006 var nýju Mannréttindaráði (Human Rights Council) komið á fót.  Í ráðinu sitja 47 fulltrúar og fyrsti fundur ráðsins var haldinn 19.-30. júní 2006, en ráðið fundar að jafnaði þrisvar sinnum á ári, að lágmarki í 10 vikur samanlagt.

Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hefur verið unnið að gerð margvíslegra mannréttindasamninga. Flestir mannréttindasamningar Sameinuðu þjóðanna gera ráð fyrir að kjörin sé nefnd eða ráð til þess að fylgjast með framkvæmd þeirra. Eftirlit er gjarnan í því formi að aðildarríki skila inn skýrslu til nefndarinnar og ríkinu er síðan gert að standa fyrir svörum. Ísland er nú aðili að öllum helstu alþjóðlegum mannréttindasamningum, og nefna má þá helstu hér:

Mannréttindanefndin (Human Rights Committee) tók til starfa 1947 og er skipuð 18 fulltrúum frá ríkjum sem samþykkt hafa alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (International Convenant on Civil and Political Rights), sem samþykktur var á allsherjarþinginu 1966 og öðlaðist gildi 1976. Samningurinn var undirritaður af Íslands hálfu 30. des. 1966 og fullgiltur ásamt valfrjálsum bókunum um kærurétt einstaklinga og um afnám dauðarefsingar.
Mannréttindanefndin hittist að jafnaði þrisvar á ári, ýmist í New York eða Genf, og fjallar þá um skýrslur aðildarríkja, kærumál einstaklinga og beiðnir um upptöku mála.

Alþjóðasamningurinn um afnám allrar kynþáttamismununar (Convention on the Elimination of All Forms of Racial Discrimination) gekk í gildi 1969. Í nefndinni eiga 18 fulltrúar sæti og nefndin fundar yfirleitt í Genf tvisvar á ári í þrjár vikur í senn.

Alþjóðasamningurinn um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi (International Convention on Economic, Social and Cultural Rights) gekk í gildi 1976. Nefndin sem starfar á grundvelli samningsins kemur saman tvisvar á ári í Genf.

Samningurinn um réttindi barna (Convention on the Rights of the Child) var samþykktur af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1989. Af Íslands hálfu var samningurinn fullgiltur 1992. Sameinuðu þjóðirnar standa nú að sérstakri framkvæmdaáætlun til eflingar samningsins um réttindi barnsins, sem Ísland hefur styrkt sérstaklega með fjárframlagi.

Samningur um afnám allrar mismununar gagnvart konum (Convention on the Eliminations of All Forms of Discrimination against Women) var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1979 og gekk í gildi 1981. Ísland fullgilti samninginn í júní 1985.

Alþjóðasamningur gegn pyntingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (Convention against Torture and Other Cruel, Inhuman or Degrading Treatment or Punishment) var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1984 og gekk í gildi 1987. Ísland fullgilti samninginn 1996.Flóttamannastofnun S.þ.

(Office of the High Commissioner for Refugees - UNHCR)

Office of the High Commissioner for Refugees - UNHCR

Samningur um réttarstöðu flóttamanna var grundvöllurinn að embætti flóttamannafulltrúa S.þ. Ísland gerðist aðili að samningnum 1. mars 1956.  Flóttamannastofnun S.þ. sinnir vernd og aðstoð við flóttamenn  Verkefnin verða æ viðameiri með ári hverju. Árið 1976 töldust flóttamenn vera 2,8 milljónir en árið 2005 hafði UNHCR afskipti af 19,2 milljónum flóttamanna og fólki sem hafði flosnað upp vegna átaka heima fyrir. Flestir þeirra eru í þróunarríkjum. Skrifstofa flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna er rekin með frjálsum framlögum og hefur Ísland lagt þar sitt af mörkum.Afvopnunarráðstefna S.þ.

(United Nations Conference on Disarmament - CD)

Afvopnunarráðstefna Sameinuðu þjóðanna var sett á laggirnar af allsherjarþingi SÞ árið 1978 og hefur þjónað sem helsti fjölþjóðlegi vettvangur samningaviðræðna um afvopnunarmál frá þeim tíma. Nú eru 65 aðildarríki, en Ísland hefur átt áheyrnaraðild að ráðstefnunni frá því í ársbyrjun 1996.

Afvopnunarráðstefnan og forverar hennar hafa gert fjölda mikilvægra alþjóðasamninga undanfarin ár, m.a. í því skyni að banna kjarnorkutilraunir, notkun jarðsprengja gegn fólki, lífefnavopn og eiturefnavopn.  Afvopnunarráðstefnan hefur undanfarið einbeitt sér að því að koma í veg fyrir kjarnorkustyrjaldir, vígbúnaðarkapphlaup á sviði kjarnaorku og slíkra efna og að takmarka vígbúnað í geimnum, auk kjarnorkuafvopnunar í víðu samhengi. 

 


 

Efnahagsnefnd Evrópu

(Economic Commission for Europe - UNECE)

Economic Commission for Europe - UNECE

Efnahagsnefnd Evrópu (Economic Commission for Europe - ECE) var sett á stofn 28. mars 1947 af Efnahags- og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðannna (ECOSOC) og er hlutverk hennar að stuðla að hagvexti og samstarfi milli þeirra 55 ríkja sem aðild eiga að henni.  ECE er ein fimm svæðisbundinna nefnda innan S.þ. þar sem rædd eru málefni á sviði flutninga, viðskipta, umhverfis og unnið að samningum og samræmdum reglum um þau efni, auk þess að veita tölfræðilegar upplýsingar, greiningu á umhverfis- og efnahagsmálum.Viðskipta- og þróunarráðstefna S.þ.

(United Nations Conference on Trade and Development - UNCTAD)

United Nations Conference on Trade and Development - UNCTAD

Grundvallarmarkmið UNCTAD er að tryggja hagsmuni þróunarríkja í alþjóðlegum viðskiptum og stuðla að efnahagslegri þróun þeirra. UNCTAD er helsti vettvangur SÞ fyrir umræður um viðskipti og þróunarmál.

Starfsáætlun fyrir UNCTAD er ákveðin á sérstökum þingum sem haldin eru fjórða hvert ár. Fyrsta þingið var haldið í Genf þegar UNCTAD var sett á laggirnar árið 1964. Þing þessi hafa tekið starfsemi UNCTAD til gagngerrar endurskoðunar á síðustu árum til að aðlaga hlutverk ráðstefnunnar að breyttum tímum. Hefur skilvirkni ráðstefnunnar sem vettvangur þróunarsamstarfs og frjálsræðis í viðskiptum þannig verið bætt til muna. Á milli þinga fer viðskipta- og þróunarráðið (Trade and Development Board - TDB) með æðstu völd UNCTAD og kemur það saman hálfsárslega. Ísland hefur átt aðild að UNCTAD frá upphafi en tók fyrst sæti í TDB á árinu 1996.

Video Gallery

View more videos