Fríverslunarsamtök Evrópu

(European Free Trade Association - EFTA)

Samningurinn um Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) var undirritaður í Stokkhólmi 20. nóvember 1959 og tók gildi 3. maí 1960. EFTA, sem eru fríverslunarsamtök en ekki tollabandalag, var upphaflega samtök sjö ríkja í Vestur-Evrópu auk þess sem Finnland gerðist aukaaðili 1961. Ísland gerðist aðili að EFTA 1. mars 1970. Núverandi aðildarríki eru, auk Íslands, Liechtenstein, Noregur og Sviss.

Meginverkefni EFTA, á grundvelli Stokkhólmssamningsins, er fríverslun með iðnaðarvörur og sjávarafurðir og að vissu marki landbúnaðarvörur svo og samskipti EFTA/EES ríkjanna við Evrópusambandið á grundvelli Samningsins um evrópska efnahagssvæðið. Með aukinni fríverslun hefur samstarf um margvíslegar aðgerðir til að stuðla að frjálsum viðskiptum auk þess orðið veigamikill þáttur í starfi samtakanna.

Fríverslunarsamningar EFTA ríkjanna eru nú 16. Samstarfsríkin eru þessi: Tyrkland 1991, Ísrael 1992, Rúmenía 1992, Búlgaría 1993, Marokkó 1997, Palestína (sem tollsvæði undir heimastjórn) 1998, Makedónía 2000, Mexíkó 2000, Jórdanía 2001, Króatía 2001, Singapúr 2002, Chile 2003, Líbanon 2004, Túnis 2004, Suður-Kórea 2005 og samningur við Tollabandalag Suður-Afríku (Botsvana, Lesotho, Namibía, Suður-Afríka og Svasíland) 2006.

Til viðbótar þessum samningum höfðu EFTA ríkin gert fríverslunarsamninga við átta ríki sem nú hafa gengið í Evrópusambandið. EES samningurinn og tvíhliða samningar Sviss við ESB hafa því komið í stað þeirra. Þessi ríki eru: Eistland, Lettland, Litháen, Pólland, Slóvakía, Slóvenía, Tékkland og Ungverjaland.

EFTA ríkin eru sem stendur í fríverslunarviðræðum við Egyptaland, Kanada (viðræður hafa legið niðri frá 2000) og Taíland. Viðræður munu hefjast við Flóaráðið (GCC - Sádi Arabía, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Barein, Katar, Kúveit og Óman.) síðar á árinu, stefnt er að fríverslunarviðræðum við Alsír síðar á þessu ári auk þess sem könnunarviðræður fara nú fram við Indónesíu.

Til viðbótar framangreindum ríkjum má nefna að EFTA hefur gert samstarfsyfirlýsingar (sem eru oft undanfari fríverslunarviðræðna) við eftirtalin ríki: Albanía 1992, Úkraína 2000, Serbía og Svartfjallaland 2000, Mercosur (Argentína, Brasilía, Paragvæ og Úrúgvæ) 2000 og Perú 2006 auk þess stefnt er að undirritun samstarfsyfirlýsingar við Kólumbíu innan skamms.

Fastanefndin sinnir samningaviðræðum á vettvangi EFTA fyrir hönd utanríkisráðuneytisins og með liðsinni annarra ráðuneyta eftir því sem við á hverju sinni. EFTA Secretariat

Video Gallery

View more videos