Aðrar alþjóðastofnanir í Genf

ITU - Alþjóðafjarskiptasambandið

(International Telecommunication Union - ITU)

International Telecommunication Union - ITU

Alþjóðafjarskiptasambandið var stofnað árið 1865. Árið 1947 var sambandið gert að einni af sérstofnunum Sameinuðu þjóðanna. Ísland varð aðili að því á alþjóðafjarskiptaráðstefnu í Atlantic City 2. október 1947. Fullgildingarskjal Íslands var afhent 1. janúar 1949. Alþjóðafjarskiptasambandið hefur starfað í Genf frá 1948.

Starfsumhverfi stofnunarinnar hefur breyst verulega á undanförnum árum. Kemur þar bæði til tenging tölvutækni og upplýsingamiðlunar við fjarskiptakerfi og aukin einkavæðing símaþjónustu. Nauðsyn alþjóðlegs samstarfs um úthlutun tíðnisviða í fjarskiptum, notkun gervihnatta og samræmingu tækjabúnaðar er þó síst minni nú en áður. Stofnunin hefur einnig veitt þróunarríkjum aðstoð og ráðgjöf í fjarskiptamálum.

Aðalráðstefna ITU er haldin á fjögurra ára fresti. Stofnunin stendur einnig fyrir ráðstefnum, málþingum og sýningum af ýmsu tagi. Umfangsmest er fjarskiptasýningin TELECOM, sem haldin er á fjögurra ára fresti og telst til meiri háttar viðburða sem dregur að tugþúsundir þátttakenda, bæði úr opinberri þjónustu og einkageiranum.WHO - Alþjóðaheilbrigðisstofnunin

(World Health Organization - WHO)

World Health Organization - WHO

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) er sérstofnun Sameinuðu þjóðanna um heilbrigðismál. WHO var stofnuð 7. apríl 1948. Markmið WHO, samkvæmt stofnskrá stofnunarinnar, er gefa öllum þjóðum kost á sem bestu heilbrigði. Heilbrigði er skilgreint í stefnuyfirlýsingunni sem líkamleg, andleg og félagsleg velmegun, ekki aðeins það að vera laus við sjúkdóma og veikindi.

WHO er stjórnað af 192 aðildarríkjum. Alþjóðaheilbrigðisþingið (World Health Assembly), sem er árlegt, er sótt af fulltrúum aðildarríkjanna. Helstu verkefni Alþjóðaheilbrigðisþingsins eru að samþykkja framkvæmda- og fjárhagsáætlun næstu tveggja ára og ákveða meginstefnumarkmið. Heilbrigðis- og tryggingaráðuneyti tekur virkan þátt í starfsemi stofnunarinnar og átti ráðuneytisstjóri þess sæti í framkvæmdastjórn WHO 2003-2006 fyrir Íslands hönd.WIPO - Alþjóðahugverkastofnunin

(World Intellectual Property Organization - WIPO)

World Intellectual Property Organization - WIPO

Alþjóðahugverkastofnunin á rætur sínar að rekja til Parísarsamningsins frá 1883 um vernd hugverka í iðnaði og Bernarsamningsins frá 1886 um vernd bókmennta og listaverka. Stofnsamningur í núverandi mynd gekk hins vegar ekki í gildi fyrr en 1970 og stofnunin telst til sérstofnana Sameinuðu þjóðanna frá 1974.

Hlutverk Alþjóðahugverkastofnunarinnar er að efla vernd hugverka og alþjóðlegt samstarf á því sviði. Stofnunin sér um rekstur fjölmargra alþjóðlegra samninga um hugverkaréttindi og skráningu hugverkaréttinda, jafnt á sviði uppfinninga og iðnhönnunar sem bókmennta og lista. Megintekjustofn er skráningargjöld og er stofnunin því rekin að mjög takmörkuðu leyti með framlögum aðildarríkja. Aðstoð og ráðgjöf til þróunarlanda hefur verið mjög vaxandi hluti starfsemi stofnunarinnar undanfarin ár.  Ísland er aðili að flestum þeim samningum sem WIPO hefur umsjón með og hefur á undanförnum árum staðfest marga þeirra, m.a. vegna skuldbindinga í EES samningnum. Einkaleyfastofa og menntamálaráðuneyti fara með málefni WIPO á Íslandi og fylgjast með starfinu á alþjóðavettvangi.

WMO - Alþjóðaveðurfræðistofnunin

(World Meteorological Organization - WMO)

World Meteorological Organization - WMO

Alþjóðaveðurfræðistofnunin var stofnsett árið 1950 og tók þá við af alþjóðlegum félagssamtökum um veðurfræði sem starfað höfðu frá 1873. Alþjóðaveðurfræðistofnunin varð ein af sérstofnunum Sameinuðu þjóðanna 1951. Hlutverk stofnunarinnar er að greiða fyrir alþjóðlegu samstarfi um veðurfarsrannsóknir og auðvelda veðurstofum að skiptast á nauðsynlegum upplýsingum. Stofnunin hefur fengið margvísleg ný verkefni á undanförnum árum, m.a. þau að fylgjast með loftslagsbreytingum vegna gróðurhúsaáhrifa og mengunar.

Aðalráðstefna stofnunarinnar er haldin á fjögurra ára fresti. Veðurstofa Íslands fylgist með og tekur þátt í starfi stofnunarinnar.ILO - Alþjóðavinnumálastofnunin

(International Labour Organization - ILO)

International Labour Organization - ILO

Alþjóðavinnumálastofnunin var stofnuð árið 1919 og varð fyrsta sérstofnun Sameinuðu þjóðanna árið 1946. Markmið stofnunarinnar um félagslegt réttlæti og alþjóðlega viðurkennd mann- og vinnuréttindi byggjast á stofnskrá samtakanna og Fíladelfíuyfirlýsingunni frá 1944. Meginviðfangsefni stofnunarinnar eru almenn samskipti atvinnurekenda og launþega sem og aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum. Stofnunin hefur aðsetur í Genf.

Í öllum nefndum og ráðum stofnunarinnar eiga sæti tveir fulltrúar stjórnvalda, einn fulltrúi atvinnurekenda og einn fulltrúi launþega. Þessi skipan um samstarf fulltrúa ríkisstjórna og aðila vinnumarkaðarins skapar Alþjóðavinnumálastofnuninni sérstöðu meðal annarra stofnana innan Sameinuðu þjóða kerfisins. Starf hennar byggist á alþjóðasamþykktum (conventions) og tillögum (recommendations). Sérstök nefnd alþjóðavinnumálaþingsins fylgist með framkvæmd ofangreindra samþykkta og tillagna og að aðildarríkin standi við skuldbindingar sínar samkvæmt samþykktunum.

Meðal meginviðfangsefna Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í dag er barátta gegn vaxandi atvinnuleysi, aðgerðir til fjölgunar starfa, réttindi heimavinnandi fólks, aðbúnaður og heilsugæsla námuverkamanna, aðgerðir gegn nauðungarvinnu, félagafrelsi, stefnan í atvinnumálum, öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi svo og afnám nauðungarvinnu barna.

Á vettvangi stofnunarinnar hafa íslensk stjórnvöld lagt áherslu á aðgerðir gegn atvinnuleysi jafnframt því að vekja athygli á breytingum á vinnumarkaði í kjölfar skipulagsbreytinga í atvinnulífinu. Auk áherslunnar á aukna efnahagssamvinnu hafa íslensk stjórnvöld stutt stofnunina í baráttu gegn vinnuþrælkun barna, nauðungarvinnu og mismunun til vinnu og starfa.


Video Gallery

View more videos