Upplýsingar um fjarpróf

Verklagsreglur varðandi framkvæmd fjarprófa hjá sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn

1. Íslenskir námsmenn, við íslenskar menntastofnanir, geta sótt um það að fá að taka fjarpróf á virkum dögum hjá sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn. Próftími fyrir hádegi hefst kl. 9 og eftir hádegi kl. 12 á dönskum tíma. Ef sá próftími hentar ekki er hægt að skoða hagræðingu, í samráði við menntastofnun. Sendiráðið áskilur sér þó rétt til að hafna próftökubeiðnum sökum plássleysis, anna tengdum reglubundinni starfsemi sendiráðsins og ítrekaðra brota á ákvæði 5.f í þessum verklagsreglum.
 
2. Próftökubeiðni skal send á netfang sendiráðsins icemb.coph@utn.stjr.is með 14 daga fyrirvara (að jafnaði). Í beiðninni þarf að tilgreina heiti menntastofnunar og faga, sem og fullt nafn, íslenska kennitölu og símanúmer umsækjanda. Fyrirspurnir um framkvæmd fjarprófa skulu einnig sendar á netfang sendiráðsins.
 
3. Athugið:  Nemendur mega ekki tilgreina sendiráðið sem próftökustað fyrr en sendiráðið er búið að samþykkja próftökubeiðnina.
 
4. Greiða þarf sendiráðinu 50 DKK í umsýslugjald vegna útprentunar prófa og útlagðs póstkostnaðar (sending prófúrlausna til Íslands) og eru próftakar beðnir um að greiða gjaldið í reiðufé áður en próf hefst.
- Ekkert gjald er tekið fyrir próf sem nemendur þreyta á tölvur og skila rafrænt.

5. Sendiráðið bendir einnig sérstaklega á eftirfarandi atriði:

a. Forföll: Hætti námsmaður við próftöku eða forfallist, t.d. vegna veikinda, ber honum að  tilkynna sendiráðinu um slíkt eins fljótt og kostur er.

b. Sendiráðið leggur próftökum ekki til tölvur og þeir eiga sjálfur að koma með fartölvur, sem og önnur tól vegna próftöku.

c. Framvísa ber persónuskílríkjum áður en próf hefst.

d. Hljóðbærni: Húsnæði sendiráðsins er ekki hannað fyrir próftökur. Búast má við klið vegna almennrar starfsemi í húsinu og þurfa próftakar því sjálfir að gera viðeigandi ráðstafanir (eyrnatappar) til að draga úr hljóðbærni við próftöku.

e. Viðvera á prófstað: Ef próftaka hefst fyrr í sendiráðinu en á Íslandi má próftaki ekki yfirgefa sendiráðið fyrr en prófið er hafið á Íslandi. (Þetta gildir þó ekki við ef viðkomandi menntastofnun hefur heimilað frávik frá þessu sökum tímamismunar).

f. Viðurlög: Próftökum ber að virða prófreglur viðkomandi menntastofnunar sem og almennar umgengnisreglur sendiráðsins. Aðili sem ekki fer eftir slíkum reglum í sendiráðinu getur átt von á því að frekari próftökubeiðnum frá honum verði hafnað.
 

**   ***  **

Verklagsreglurnar voru síðast uppfærðar 20. nóvember 2017.

Video Gallery

View more videos